Á mánudaginn héldu rannsóknarskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson af stað í loðnumælingarleiðangur. Þrjú loðnuskip taka einnig þátt í mælingunum, Jóna Eðvalds SF og Ásgrímur Halldórsson SF frá Skinney-Þinganes og Heimaey VE frá Ísfélagi Vestmannaeyja.

Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir leiðangurinn ganga vel. Töluvert hafi sést af loðnu, bæði út af Austurlandi og norður af norðausturlandi.

„Það er fullt af loðnu á þessum slóðum. Bara spurning hve mikið.“

Hornfirsku skipin Ásgrímur Halldórsson og Jóna Eðvalds lentu fljótt í loðnu þegar siglt var til austurs frá Hornafirði og þurftu að lengja leiðarlínurnar sem gengið hafði verið út frá.

Þéttar torfur

„Þetta var stór loðna, líklegast eitthvað sem Árni hafði misst af í sinni könnun.“

Svo eru Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson að fara yfir þær slóðir norður af Langanesi þar sem vænta má að aðalgangan sé komin sem sást í könnunarleiðangri Árna í síðustu viku. Þar er líka töluvert af loðnu að sjá.

„Þeir hafa verið í loðnu þarna, þéttum torfum.“

Könnunarleiðangurinn var farinn til þess að gefa betri mynd af því hvar loðnuna væri að finna, en ákveðið var að fá þrjú loðnuskip til liðs við rannsóknarskipin til þess að ljúka mælingunni sem fyrst, helst áður en veður myndu versna nú í lok vikunnar.

Mögulegar tafir

Guðmundur segir mögulegt að skipin þurfi að bíða einhvers staðar af sér veður, en veðurspár hafi þó verið breytilegar.

„Mögulega gæti það gerst þarna vestan til. En við munum örugglega ná að loka þessu öllu þarna fyrir austan og norðaustan, þar sem mesti massinn var í könnun Árna.“

Gangi allt vel gætu niðurstöður mögulega legið fyrir snemma í febrúar, en Guðmundur segist þó ekki getað lofað neinu um það.

„Við höfum ekki kvarðað mælana hjá loðnuskipunum sem eru með okkur, sem við verðum þá að gera strax að mælingum loknum áður en við getum farið að vinna mikið með niðurstöðurnar. Við verðum bara að bíða eftir góðu veðri til þess, einhvers staðar inni á fjörðum. Það mun tefja úrvinnslu eitthvað aðeins.“

Fylgjast má með framgangi leitarinnar á skipavef Hafrannsóknastofnunar: skip.hafro.is