„Þetta var einn dagur, segir Þorkell Pétursson, skipstjóri á Barða NK frá Síldarvinnslunni, eftir stystu loðnuvertíð allra tíma hér við land og þar með sem hann hefur upplifað.
Þegar rætt er við Þorkel á mánudag er Barði á leið með um 1.200 tonn afla til heimahafnar í Neskaupstað. Áætlað var að hefja löndun þar klukkan sjö í gærmorgun.

Loðnu fékk Barði að sögn Þorkels skammt sunnan við Malarrif. „Þetta gekk bara mjög vel. Þetta er fínasti fiskur, ég held að þetta verði allt unnið sem hægt er að vinna,“ segir hann.
Barði veiddi ekki eingöngu upp í aflaheimildir Síldarvinnslunnar sem var yfir 800 tonn heldur líka kvóta frá öðrum útgerðum
Aftur til leitar
Lagt var upp í nýjan loðnuleitarleiðangur á mánudagskvöldið. Í honum taka þátt Aðalsteinn Jónsson SU frá Eskju sem lagði upp frá Eskifirði og grænlenski togarinn Polar Ammassak sem lét úr höfn á Reyðarfirði. Um borð í skipunum eru fulltrúar frá Hafrannsóknastofnun að venju. Leita á fyrir norðan land og vestan.
„Það er voða erfitt að segja til um það,“ svarar Þorkell spurður hvort menn reyni að vera vongóðir um að úr rætist. „En maður verður bara að vona að þeir finni einhvern fisk,“ undirstrikar hann og tekur undir það að magnið sem heimilt sé að veiða sé svo lítið að það sé eiginlega fáránlegt að kalla það loðnuvertíð. „En við erum með fínasta farm, 1.200 og það er ekkert að því.“
Nítján prósent hrognafylling

„Við fórum bara með ströndinni og beint út á Malarrif,“ segir Þorkell áfram um nýafstaðinn túr Barða NK. „Það var fiskur úti í Flóa og úti af Reykjanesi var fiskur. Það var meira og minna loðna frá Reykjanesi og norður undir Malarrif. Við fórum ekkert lengra heldur köstuðum þar þrjú köst og fórum til baka,“ segir Þorkell. Loðna sé þó norður í Breiðafjörð og jafnvel lengra.
Hrognafyllingin í loðnunni er um 19 prósent að sögn Þorkels, að minnsta kosti í loðnunni sem er fremst í göngunni.
„Ég held að það sé ekkert byrjað að losa hrygningarpokana á loðnunni. Þá er hún enn þá hæf fyrir Japansmarkað. Hún hrygnir í 24 til 25 prósentum, þá verður hún komin í spreng,“ segir Þorkell Pétursson.