Vestmannaeyjatogararnir Bergey VE og Vestmannaey VE lönduðu báðir nánast fullfermi í Neskaupstað í morgun. Á sama tíma landaði Gullver NS tæpum 100 tonnum á Seyðisfirði. Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, lét ekki illa af veiðinni en sagði að aflinn væri langmest þorskur.

„Það var látið úr höfn á Djúpavogi og byrjað að veiða á Breiðdalsgrunni. Þar var kropp en síðan veiddum við Utanfótar. Túrnum lauk síðan á Gerpisflakinu og þar var leitað að ýsu með litlum árangri. Menn eru núna nikið að leita að ýsunni en reyndin er sú að það er oft erfitt að finna hana seinni partinn í ágústmánuði. Ég geri ráð fyrir að nú verði lögð áhersla á annað en þorsk og þá verði byrjað við Hvalbakinn og haldið vestureftir. Við sjáum til hvernig það gengur,” sagði Birgir Þór.

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, sagði að aflinn hefði mátt vera blandaðri.

„Þetta er nánast eingöngu þorskur en okkur gekk illa að finna ýsu. Við fórum út frá Djúpavogi á mánudag og hófum túrinn á Breiðdalsgrunni. Síðan var restað Utanfótar og á Herðablaðinu. Það var mokveiði undir lokin hjá okkur. Þetta er ágætur þorskur sem þarna fékkst en spurningin er bara hvar ýsan heldur sig. Það virðist ekki vera mikið um ýsu hér fyrir austan og fyrir sunnan landið,” sagði Jón.

Hjálmar Ólafur Bjarnason, skipstjóri á Gullver, sagðist ekki vera alltof sáttur við fiskiríið.

„Þessi túr tók tæpa viku höfn í höfn hjá okkur og það var veitt frá Öræfagrunni og norður á Herðablað. Við vorum allan tímann að reyna að fá ýsu en það gekk erfiðlega. Aflinn er langmest þorskur og síðan dálítið af ýsu og karfa,” sagði Hjálmar Ólafur.

Vestmannaeyjaskipin halda til veiða á ný síðar í dag og Gullver heldur til veiða í kvöld.