Talsverður sparnaður gæti náðst fram verði hugmyndir um fjarvigtun afla í minni höfnum að veruleika.
„Við erum búin að tala fyrir þessu, Hafnasambandið og hafnirnar úti á landi, um langt árabil. Þetta hefur strandað víða í kerfinu,“ segir Lúðvík Geirsson, formaður Hafnasambands Íslands og hafnarstjóri í Hafnarfirði.
Að sögn Lúðvíks hefur aðallega verið samtal við Fiskistofu um þetta mál. Það samtal hafi verið endurnýjað á síðastliðnum vetri og vinna sé í gangi.
Eftirlit um fjarbúnað
„Það er komin hugmynd að tillögu um útfærslur og um að gera tilraunir á tveimur eða þremur stöðum þar sem verði fjarvigtun samhliða venjulegri vigtun. Þetta verði gert þannig á meðan menn eru að stíga fyrstu skrefin og sjá hvernig þetta gengur fyrir sig. Nú er verið að velja hafnirnar sem fara í þetta tilraunaverkefni sem er stefnt að geti jafnvel farið af stað nú í vor,“ segir Lúðvík.
Fjarvigtun snýst í stuttu máli um að í minni höfnum þar sem ekki er staðbundinn hafnarvörður sé hægt að vigta afla sem kemur að landi með búnaði sem sendir upplýsingar beint til vigtunarmanna í stærri höfn á sama svæði.
Langar og dýrar ferðir
Spurður hvaða hafnir gætu mögulega orðið fjarvigtunar hafnir nefnir Lúðvík til dæmis Þingeyri, Flateyri og Suðureyri þar sem maður þurfi að fara frá Ísafirði til að vigta. Einnig nefnir hann Raufarhöfn sem heyri undir höfnina í Húsavík.
„Þetta er fyrst og fremst þar sem meginhöfn er á einum stað og svo minni úthafnir og ekki fastur starfskraftur á þeim stöðum og þar sem er bara stöku löndun. Það er mjög dýrt að kalla út starfsmann til að fara í langt ferðalag, jafnvel í alls konar veðrum og færi yfir vetur, til að vigta kannski nokkur hundruð kíló. Þannig að þetta er öryggismál líka,“ útskýrir Lúðvík.
Reynt að finna leiðir
Hindranirnar fyrir því að taka upp fjarvigtun eru fyrst og fremst lagalegar en ekki tæknilegar. „Það þarf ákveðnar reglugerðarbreytingar og heimildir til þess að það sé hægt að útfæra þetta eins og lagaramminn er í dag,“ segir Lúðvík. „Það er verið að reyna finna leiðir í gegnum þá tækni sem við höfum í dag,“ segir Lúðvík. Um sé að ræða að vera með beina upptöku af löndunum. „Það þýðir að það þarf að koma upp myndavélum og upptökum á þessum stöðum. Það fylgir með að Fiskistofa hefur aðgang að þessu efni og getur fylgst með því,“ segir Lúðvík.
Jákvætt að fá tilraunaverkefni
Lögin segi hins vegar að það þurfi að vera vigtarmaður á staðnum. Til að komast fram hjá því segir Lúðvík þurfa að veita ákveðnar undanþágu og gera breytingar á regluverkinu. „En áður en menn framkvæma það þá vilja menn fara í svona tilraunaverkefni. Það er eiginlega niðurstaðan eftir samtalið, sem er auðvitað bara jákvætt að menn eru þó komnir þangað. Að í staðinn fyrir að segja að þetta sé ekki hægt og taka þetta út af borðinu að segja: jú við skulum skoða þetta en gera það svona fyrst,“ segir Lúðvík.
Ýmsu ósvarað
Líkt og Lúðvík segir Sævar Guðmundsson, deildarstjóri landeftirlits hjá Fiskistofu, að málið hafi verið mörg ár til umræðu á vettvangi samráðshóps milli Fiskistofu og Hafnasambandsins. Það snúist um hafnir þar sem mjög lítið sé um að vera og enginn hafnarvörður sé á staðnum.
„Það hefur verið rætt um hvort það væri hægt að setja upp einhvers konar fjarvigtun. Þá sæti hafnarvörður á Ísafirði og hann gæti vigtað á Flateyri sem dæmi,“ segir Sævar sem eins og Lúðvík segir stöðuna þá að verið sé að skoða lagalegu hliðina þar sem ýmsum spurningum sé ósvarað.
Ekki nauðsynlega óöruggara
„Er þetta heimilt samkvæmt lögum og er hægt að setja þannig búnað að hann sé með myndavélar, skynjara og tengingar? Þannig að þetta er tilraunaverkefni sem hefur farið af stað í nokkur skipti en oftast stoppað á lagalegu hliðinni,“ segir Sævar. Án breytinga á lögum segir Sævar að það þurfi að vera hægt að veita undanþágur til að fjarvigtun geti orðið heimil. „En auðvitað fleygir tækninni fram og það er ekkert verið að segja að það sé eitthvað óöruggara að vera með svona þar sem kannski einn og einn bátur landar í einhverri höfn með nokkur kör sem að hægt væri að skrá og vigta úr fjarlægð,“ tekur Sævar fram.
Sparnaður helsti ávinningurinn
Spurður um ávinninginn af fjarvigtun nefnir Sævar sparnað fyrir hafnirnar. Jafnvel þótt ekki verði af fyrirkomulaginu geti menn landað eftir sem áður á sama hátt í minni höfnunum. „Í öllum höfnum þarf að vera vigt og löggildur vigtarmaður sem kemur og skráir aflann. Þetta hefur ekkert dregið úr slíkum möguleikum,“ segir hann. Sævar undirstrikar að ekki sé búið að skilgreina verkefnið og ekki sé komið á hreint hvaða hafnir muni taka þátt. „Þetta snýst um að finna leiðir til að gera þetta almennilega á smærri höfnunum og það á eftir að greina það niður hver skilyrðin þurfa þá að vera og hvað menn vilja prófa. Menn vilja bara vinna þetta vel, sjá hvaða búnað er hægt að setja upp og hvort það sé vilji til þess að breyta þessu,“ segir Sævar.
Skref í rétta átt
Að sögn Lúðvíks Geirssonar vilja menn sjá hver reynslan geti orðið með þessu tilraunaverkefni þar sem stuðst er við bæði fjarvigtun og venjulega vigtun. „Þannig að við sjáum hvernig þetta er að virka og svo vonandi verður reynslan af því þannig að menn segja bara: gott mál, við skulum bara gefa heimildir þar sem þá á við. Þetta er skref í rétt átt ,“ segir Lúðvík.