Strandveiðin hefur verið öflug strax fyrstu daga veiðitímabilsins. 535 bátar eru byrjaðir á veiðum og hafa þeir veitt að meðaltali 268 tonn á dag. Alls veiddust 1.072 tonn af þorski á fyrstu fjórum dögum tímabilsins, en það er ríflega tíundi hluti leyfilegs heildarafla sumarsins.

Allt virðist nú stefna í að leyfilegur heildarafli strandveiða sumarsins verði uppurinn löngu áður en tímabilinu lýkur.

Bátarnir mega veiða samtals 10.000 tonn af þorski, 1.000 tonn af ufsa og 100 tonn af gullkarfa, og hafa til þess samtals 48 daga, tólf í hverjum mánuði frá maíbyrjun til ágústloka. Fiskistofu ber hins vegar að stöðva veiðarnar þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla sé náð.

„Alls hafa veiðst 1.072 af þorski á fyrstu fjórum dögum strandveiða eða að meðaltali 268 tonn á dag. Bátunum fjölgar með degi hverjum, en 535 bátar hafa nú hafið veiðar,“ segir á vef Landssambands smábátasjómanna, smabatar.is

„Báðar þessar tölur eru mun hærri en árið 2021 sem er næst því sem nú er. Bátarnir voru þá 287 og þorskafli þeirra 674 tonn.“

Búist við stöðvun

Fiskistofa hefur nokkrum sinnum þurft að stöðva strandveiðar áður en veiðtímabilinu lýkur.

„Það var slæmt í fyrra. Þá var skrúfað fyrir 21. júlí, þá vorum við komnir í stuð hérna fyrir norðan, með góðan fisk og svona,“ sagði Bjarni Eyjólfsson, sem gerir út á strandveiðar frá Húsavík í sumar, í viðtali sem birtist í Fiskifréttum í síðustu viku. „Ef það verður engu bætt við þá held ég að þetta verði svipað og í fyrra. Við bara reiknum með því að það verði bara þannig. Það er ekki gott fyrir þetta svæði hérna, austursvæðið.“

Strandveiðisjómenn hafa lagt mikla áherslu á að hverjum báti verði tryggðir 48 dagar, og vilja að frekar verði bætt í heildarpottinn en að stöðva veiðarnar. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur hins lagt fram frumvarp um að svæðaskipting strandveiða verði tekin upp á ný, til þess að jafna aðstöðu til veiðanna eftir landshlutum. Það frumvarp hefur fengið misjafnar viðtökur meðal strandveiðisjómanna.