Dúi Jóhannsson Landmark, upplýsingafulltrúi matvælaráðuneytisins, segir enn mikinn áhuga meðal strandríkja að ná samningu um skiptingu makrílkvótans fyrir árið 2023.

„Búið er að skipuleggja fundalotu í febrúar og mars til að reyna að ná því markmiði. Það er langt milli samningsaðila en þessir tíðu fundir undanfarna mánuði hafa þó þokað viðræðunum áfram," segir í skriflegu svari frá ráðuneytinu. „Stærsti ágreiningurinn er um skiptingu hlutdeildar, en gagnkvæmar aðgangsheimildir eru einnig óútkljáðar. Það er ljóst að ef samningur á að nást þurfa öll strandríkin að slá af kröfum sínum.“

Þann 6. desember var undirritað samkomulagum heildarveiði ríkjanna úr makrílstofninum, þar sem fylgt er ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins um að ársaflinn 2023 verði ekki meiri en 782.066 tonn. Eins og fyrr hefur þó ekki verið gengið frá neinu samkomulagi um það hve mikið kemur í hlut hvers ríkis, en þó tekið fram að á allmörgum aukafundum hafi mikið verið rætt um nýja nálgun við stjórn veiðanna. Það fæli í sér samkomulag um skiptingu veiðiheimildanna til lengri tíma.

Sammála um mikilvægið

„Þau voru sammála um að slíkt fyrirkomulag sé afar mikilvægt og að halda eigi áfram að vinna saman af krafti að þessum málum með það markmið í huga að ná samkomulagi eins fljótt og verða mál,“ segir í samningnum sem undirritað er af fulltrúum Bretlands, Evrópusambandsins, Færeyja, Grænlands, Íslands og Noregs.

Jafnframt segjast aðilar samningsins sammála um að hvert ríki muni nú ákveða eigin veiðiheimildir fyrir árið 2023 með það í huga að nýtt fyrirkomulag kvótaskiptingar sé væntanlegt. Tekið er fram í samningnum að þessar einhliða ákvarðanir eigi að taka með hliðsjón af því að þær muni auðvelda þeim að ná niðurstöðu í samningaviðræðunum sem framundan eru.

Með öðrum orðum þá hafa samninganefndirnar lýst yfir vilja til þess að einhliða ákvarðanir ríkjanna um veiðiheimildir séu ekki teknar eingöngu út frá ítrustu hagsmunum hvers ríkis eins og verið hefur, heldur með tilliti til þess að þær eigi að auðvelda öllum að sætta sig við væntanlegt heildarsamkomulag.