„Það er skemmtilegast að veiða finnst mér ef maður er að fá vænan fisk. Það skilar manni hins vegar ekki alltaf bestum árangri því hann er kannski á dýpra vatni og seinlegra að draga hann,“ segir Pétur Sigurðsson, útgerðarmaður hjá Sólrúnu ehf. á Árskógssandi og keppandi í sjóstangaveiði.

Að sögn Péturs tóku þrjátíu veiðimenn þátt í tveimur síðustu mótum tímabilsins undir hatti Landssambands sjóstangaveiðifélaga. Voru það mót Sjóstangaveiðifélags Akureyrar sem fram fór frá Dalvík upp úr miðjum ágúst og mót Sjóstangaveiðifélags Siglufjarðar sem lauk á Siglufirði um liðna helgi.

Fyrir mótið á Siglufirði var Pétur efstur á stigalistanum til Íslandsmeistaratitilsins en fleiri veiðimenn áttu einnig möguleika á sigrinum. Að sögn Péturs verða úrslitin ekki tilkynnt fyrr en í lokahófi Landssambands sjóstangaveiðifélaga sem  fram fer í Reykjavík í kvöld, laugardagskvöld.

Gengur upp á endanum

Pétur segir sjö félög eiga aðild að landssambandinu. Þau haldi hvert sitt mótið yfir sumarið. Að vísu hafi mótin aðeins orðið sex í ár.

Pétur Sigurðsson hjá Sólrúnu á Árskógssandi. Mynd/Aðsend
Pétur Sigurðsson hjá Sólrúnu á Árskógssandi. Mynd/Aðsend

„Það eru ráðnir skipstjórar til að fara með sína báta og þeir fá svo greiddan kostnað. Við fáum að fénýta aflann til greiðslu kostnaðar,“ segir Pétur. Þetta gangi yfirleitt vel upp.

„Félög hafa lent í því að fá léleg mót út af veðri kannski í tvo, þrjú ár og standa mótin þá ekki undir sér. En síðan fá þau tvö, þrjú mót sem eru góð og þá leggja félöginm fyrir og geta rétt sig af. Þetta gengur allt upp á endanum,“ segir Pétur.

Á bilinu 300 til 400 manns eru í sjóstangaveiðifélögunum. Af þeim eru 60 til 70 virkir í veiðinni að sögn Péturs. Sjálfur er hann í Sjóstangaveiðifélagi Akureyrar sem verður sextíu ára á næsta ári.

Fara á sjó meðan þeir geta

„Á okkar móti var minnst þriggja heiðursfélaga sem féllu frá á síðasta ári og voru allir yfir nírætt. Þeir voru að koma á sjó alveg fram undir áttrætt og sá elsti var að veiða 86 ára í síðasta skiptið. Á meðan menn hafa heilsu fara þeir á sjó ef þeir geta,“ segir Pétur sem byrjaði sinn veiðiskap fyrir rúmum þrjátíu árum, árið 1992.

Kátt á hjalla á bryggjunni á Siglufirði þegar keppendur komu í land með afla sinn. Mynd/Sjóstangaveiðifélag Siglufjarðar.
Kátt á hjalla á bryggjunni á Siglufirði þegar keppendur komu í land með afla sinn. Mynd/Sjóstangaveiðifélag Siglufjarðar.

„Í mínum huga er það dálítið þroskaferli að ná að verða góður veiðimaður og mér hefur bara gengið ágætlega. Ég vann eitt mót 1994. Síðan vann ég þrjú mót árið 2000 og varð Íslandsmeistari en vann ekkert mót þar á milli. Síðan var ég fjórum sinnum Íslandsmeistari milli 2010 og 2020. Og það er að koma upp fullt af spræku fólki,“ segir Pétur.

Uppistaðan er þorskur

Heilmikil keppni er í sjóstangaveiðinni enda er tekist á  um Íslandsmeistaratignina auk margra annarra titla, meðal annars eftir tegundum og aflamagni. Uppistaðan í veiðinni er ávallt þorskur segir Pétur. „En maður dregur allar tegundir. Ég hef dregið mest tíu tegundir á einu sumri.“

Skemmtilegar myndir af lokamótinu á Siglufirði má sjá á Facebooksíðu sjóstangaveiðfélagsins þar.