Þrjú ný skip hafa bæst í íslenska fiskiskipaflotann á þessu ári og í smíðum eru tvö ný skip sem koma til Íslands. Skipin sem komu á þessu ári voru Sigurbjörg ÁR, ísfiskskip í eigu Ísfélagsins sem smíðað var eftir hönnun Nautic hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi, Hulda Björnsdóttir GK, ísfisktogari Þorbjarnar í Grindavík, sem smíðaður var eftir hönnun Skipatækni hjá Armon á Spáni og Hákon ÞH sem var smíðaður hjá Karstensens skipasmíðastöðinni í Danmörku og hannaður þar í samstarfi við útgerðina.
Síðar á þessu ári, eða rétt fyrir áramót, hefur verið tilkynnt að nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Þórunn Þórðardóttir HF, komi til landsins en hún er einnig smíðuð hjá Armon á Spáni. Á síðasta ári bættist Guðbjörg GK við sem fyrsti stálbáturinn sem er smíðaður inn í krókaaflamarkskerfið. Báturinn er í eigu Stakkavíkur í Grindavík og heldur innan tíðar í sína fyrstu veiðiferð eftir að hafa legið óhreyfður frá komunni til landsins fyrir ári vegna eldsumbrotanna nærri Grindavík.
Sigurbjörg ÁR
Sigurbjörg ÁR, nýtt ísfiskskip Ísfélagsins, kom til landsins í júlí í sumar eftir siglingu frá Tyrklandi sem tók tvær vikur. Sigurbjörg er smíðuð hjá Celiktrans. Mesta lengd er 48,10 m og aðalvélin er MAN 1.795 kW. Hún er með fjögurra blaða skrúfu sem er 3,8 m í þvermál. Skipið er klárt á veiðar með þrjú troll en mun notast við tvö tröll við bolfiskveiðar. Á siglingu til Íslands notaði Sigurjörg að meðaltali 300 lítra af olíu á klukkustund. Skipstjóri er Sigvaldi Páll Þorleifsson.
Hulda Björnsdóttir GK
Hulda Björnsdóttir GK setti ný viðmið í olíusparnaði á heimsiglingunni frá Gijón á Spáni til Íslands fyrr í mánuðinum. Síðasta spölinn á 12 mílna siglingu var olíunotkunin um 340 lítrar sem þykir gott fyrir 75 metra langan ísfiskstogara. Nú er verið að fínstilla og útbúa skipið á veiðar en mikil uppstokkun er framundan hjá fyrirtækinu sjálfu. Þorbirni hf. verður skipt upp í þrjú félög í eigu afkomenda systkinanna Eiríks, Gunnars og Gerðar Tómasbarna. Ekki er vitað inni í hvaða félagi ný Hulda Björnsdóttir GK endar.
Hákon ÞH
Gjögur hf. á Grenivík hefur átt og rekið þrjú skip sem hafa borið nafnið Hákon og síðastliðinn sunnudag bættist það fjórða við þegar splunkunýr Hákon ÞH 250 sigldi inn Sundin eftir talsverðar uppákomur á heimleiðinni. Skipið var smíðað hjá Karstensen skipasmíðastæðinni á Jótlandi.
Aðalvélin er frá vélaframleiðandum Wärtsilä, 5.200 kW. Upp kom vélarbilun þegar það var statt rétt sunnan Færeyja sem tafði talsvert heimkomuna. Verið er að undirbúa skipið á veiðar á norsk-íslenska síld og í framhaldinu fer það til veiða á íslenskri sumargotssíld.
Þórunn Þórðardóttir HF
Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Þórunn Þórðardóttir HF 300, er væntanlegt til landsins fyrir áramót. Skipið er smíðað hjá Armón í Vigo á Spáni og var sjósett í janúar á þessu ári. Það mun leysa af hólmi Bjarna Sæmundsson HF 30 sem hefur þjónað sem hafrannsóknaskip í 53 ár. Skipið er 70 metrar á lengd og 13 metrar á breidd. Áhersla var lögð á sparneytni og umhverfishæfni og þess vegna er um tvíorkuskip að ræða með rafknúnum skrúfum. Meginorkugjafi er olía en einnig eru stórar rafhlöður í skipinu sem stuðla að betri orkunýtingu. Hjá Armón er einnig í smíðum nýr Júlíus Geirmundsson ÍS. Hann er hannaður af Skipasýn hf. og verður 67 metrar á lengd. Áætlaður afhendingartími er á síðari hluta árs 2026.