Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Þórunn Þórðardóttir HF 300, gekkst undir siglinga- og búnaðarprófanir í fyrradag í Vigo á Spáni. Hér má sjá myndband af þessum áfanga. Tilgangurinn var að framkvæmda siglingaprófanir og prófanir á tækjabúnaði skipsins. Skipið er smíði V-145 hjá Armón skipasmíðastöðinni í Vigo. Rannsóknaskipið er 69,80 metra langt og 13 metrar á breidd. Greint er frá þessu á Fésbókarsíðunni Cx9aaw Información Marítima y Naval.

Þar segir að skipið sé eitt hið stærsta sem skipasmíðastöðin hafi smíðað fyrir Íslendinga. Hlutverk þess sé að leysa af hólmi Bjarna Sæmundsson HF sem hafi um hálfrar aldar skeið rannsakað hafsvæðið í Norður-Atlantshafið. Meðal búnaðar í skipinu eru svokallaðar Gilson-vindur, sérstakar línuvindur, neta- og ankerisvindur ásamt öðrum hjálparvindum og háþróuðum kerfisstýringarbúnaði.

„Nafn skipsins er virðingarvottur við Þórunni Þórðardóttur, fyrstu íslensku konuna sem helgaði starfskrafta sína hafrannsóknum. Við hönnun skipsins var lögð mikil áhersla á umhverfismál með hliðsjón af nýjustu tækni. Allar leiðir voru kannaðar og nýttar til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og stuðla að auknum orkusparnaði. Hluti af þessari nálgun er framlag Naust Marine sem framleiðir fyrir skipið háþróaðar rafmagnsvindur sem draga úr umhverfisáhrifum skipsins. Rafmagnvindurnar eru þeim kostum búnar að af þeim stafar engin losun gróðurhúsalofttegunda, engin hætta er á vökvaleka frá þeim eða eldhætta, þær valda minni umhverfishávaða og titringi og stuðla að meiri skilvirkni,“ segir í textanum frá síðunni.

Ráðgert er að Þórunn Þórðardóttir HF komi til Íslands fyrir áramót eða fyrstu dagana á nýju ári.