Þorskverð er í sögulegum hæðum í Evrópu um þessar mundir og svo mikil eftirspurn að ólíklegt er að fiskur unninn í Kína sem áður fór á Bandaríkjamarkað en stefnir nú inn til Evrópu hafi áhrif til lækkunar verðs. Heimildarmenn Fiskifrétta sem þekkja mjög vel til í sölu- og markaðsmálum á hvítfiski í Evrópu segja samt mikla óvissu til skemmri og lengri tíma vegna óútreiknanleikans í Bandaríkjunum.
Nú er 145% tollur á innfluttar sjávarafurðir frá Kína til Bandaríkjanna og 10% á aðrar þjóðir. Fáir búast við að þetta verði lokastaðan í yfirstandandi tollastríði og hefur þessi óvissa mikil áhrif til skemmri tíma. Sjófrystur fiskur rússneskra togara er á bannlista í Bandaríkjunum og Kínverjar geta ekki unnið heilfrystan fisk frá Rússum inn á þann markað heldur. Þeir geta þó unnið ýsu inn á þennan markað því hún er ekki á bannlistanum en hún ber þá 145% toll. 41% tollur er á fisk frá rússneskum togurum inn til Bretlands og inn í Evrópusambandið er 7,5% tollur á rússneskan þorsk og tæp 14% á alaskaufsa.
Högg fyrir Norðmenn
Háir tollar á unninn fisk frá Kína til Bandaríkjanna koma til með að hafa áhrif á Norðmenn sem hafa flutt mikið út af óunnum fiski fyrir fiskvinnsluna í Kína og hafa verið að fá mun hærri verð en Rússar. Ljóst þykir því að Norðmenn þurfa að taka á sig talsvert högg vegna tollastefnu Bandaríkjamanna. Allt hefur þetta leitt til mikillar eftirspurnar fyrir fisk annars staðar frá Evrópu inn á Bandaríkjamarkað. Þær fiskveiðiþjóðir sem eru á 10% tolli njóta þessa dagana umtalsverðra verðhækkana í þar í landi. Menn velta því líka fyrir sér hvort 10% tollur breyti nokkru í heildarmyndinni, jafnvel þótt hann verði til frambúðar. En sem fyrr segir er óvissan mikil. Eftir því sem næst verður komist hefur tollurinn ekki haft áhrif á útflutning frá Íslandi til Bandaríkjanna. Þar virðist sem bandarískir neytendur taki hann á sig. Einmitt þess vegna er engan veginn gefið að besti kosturinn í stöðunni sé sá að íslenskir framleiðendur snúi sér í auknum mæli að mörkuðum í Evrópu þar sem þeir eru þó stórir fyrir.
Aukið framboð frá Kína inn til Evrópu
„Í dag er mikill skortur á þorski í Bandaríkjunum og ekkert sem bendir til þess að sú eftirspurn fari minnkandi. Þar af leiðandi mun hátt verð halda sér þar. Heyrst hefur að Kínverjar munu auka framboð sitt til Evrópu vegna þess að þeir koma fiskinum ekki til Bandaríkjanna,“ segja heimildarmenn innan greinarinnar. Gríðarlegur niðurskurður er í þorskveiðum í Barentshafi. Heildarkvótinn er innan við 400.000 tonn á þessu ári. Þetta er samdráttur upp á 400-500 þúsund tonn á 5-6 árum. Þetta hefur leitt af sér mikinn skort á þorski í Evrópu og það breytir ekki heildarmyndinni þótt Kínverjar komi inn á markaðinn til skamms tíma. Verð á hausuðum, slægðum þorski er afar hátt og verður það áfram til lengri tíma litið. Ástæðan er þessi mikli skortur á þorski inn á Evrópumarkaði.
Viðmælandi Fiskifrétta sem lengi hefur fengist við sölu á fiski í Evrópu man ekki eftir jafnháum verðum frá löngum ferli sínum. „Svona verð hafa aldrei áður verið á markaðnum fyrir þorsk,“ segir hann. Þessi staða í Evrópu ætti að nýtast Íslendingum vel. Örlítið önnur mynd blasir við þegar kemur að ýsu út af heilfrysta markaðnum í Kína. Engu að síður er mikill skortur einnig á ýsu í Evrópu. Samdráttur í ýsuveiðum í Barentshafi er svipaður og í þorski. Markaðurinn er ekki eins stór og en engu að síður eru öflugir markaðir fyrir ýsu í Evrópu. Mikið magn af henni hefur verið unnið í Kína fyrir Bandaríkjamarkað en nú leggst á þá framleiðslu 145% tollur sem líklega gerir út af við þann útflutning.