Skipafélagið Cargow ThorShip óskar eftir aðstöðu til til losunar og lestunar gámaskipa í Sundahöfn og farmsvæði. Cargow ThorShip hefur á Íslandi aðallega þjónað álframleiðendum og gert út frá Straumsvíkurhöfn og frá Reyðarfirði en félagið hyggst nú bæta Reykjavíkurhöfn við.
„,Það er almennur inn- og útflutningur sem við erum að horfa til. Það byggir á því sem við erumbúin að vera að gera undanfarinár og við viljum efla þjónustuna frekar,“ segir Stefán H. Stefánsson, framkvæmdastjóri Cargow ThorShip, sem kveður félagið hafa verið í hefðbundnum gámaflutningum samhliða álflutningunum síðustu fimmtán ár.

Engir formlegir fundir hafa enn verið með aðilum en Stefán segir að erindi Cargow ThorShip hafi verið ágætlega tekið. „Það skiptir öllu máli að þeir geti skapað okkur aðstöðu til að koma inn og keppa á markaðnum,“ segir hann. Hingað til hafi hafnaraðstaða og hafnarþjónusta verið flöskuháls er komi að því að bjóða viðbótarþjónustu.
Þannig segir Stefán að Cargow ThorShip vilji svara eftirspurn eftir aukinni samkeppni í flutningum. „En það er auðvitað háð viðtökum bæði viðskiptavina og yfirvalda hvernig það gengur,“ segir hann.
Laust svæði milli flutningsrisa
„Við fögnum því að sjálfsögðu,“ segir hafnarstjóri Faxaflóahafna, Gunnar Tryggvason, um erindi Cargow ThorShip.

„Það eru skammtíma möguleikar sem við erum að skoða með þeim en langtíma möguleikarnir eru mjög háðir útfærslu Sundabrautar,“ segir Gunnar og bendir á að á milli athafnasvæða Eimskips og Samskipa sé óúthlutað svæði.
„Við erum að skoða að gera einhverja skammtíma aðstöðu fyrir þá þar. Þá er stutt í annan
hvorn viðlegukantinn, Sundabakka eða Vogabakka,“ segir hann og vísar þá til viðlegukantanna sem Eimskip og Samskip nota. Það sé aðeins tæknileg útfærsla í hvora áttina starfssvæði Cargow ThorShip yrði tengt.
Veltan fór yfir þrjá milljarða
ThorShip var keypt af hollenska skipafélaginu Cargow BW fyrir um tveimur árum og voru félögin sameinuð undir nafninu Cargow ThorShip. Stærsti einstaki eigandi hins sameinaða félags er fjárfestirinn Bjarni Ármannsson.
ThorShip, það er að segja félagið sem starfað hefur hér á Íslandi, velti 3.147 milljónum krónum í fyrra miðað við 2.556 milljónir árið 2021. Veltan í fyrra var næstum því tvöföld á við veltu ThorShip fimm árum fyrr, árið 2017, þegar hún var 1.645 milljónir króna.
Til að varpa ljósi á stærð ThorShip má nefna til samanburðar að á árinu 2022 velti Eimskip um það bil 157 milljörðum króna eða nærri fimmtugfalt meira en ThorShip hér á Íslandi.