Áhöfnin á varðskipinu Þór hélt í gær æfingu með áhöfn franska farþegaskipsins Le Commandant Charcot.
Æfingin gekk afar vel og fólst í því að koma taug á milli skipanna og draga franska skipið í um hálfa klukkustund. Varðskipið Þór stóðst þessa þolraun vel og náði mest um 8 hnúta hraða með skipið í togi.
Æfingar sem þessar eru sérlega mikilvægar svo áhafnir beggja skipa séu sem best undirbúnar ef á reynir.
Le Commandant Charcot er í hópi minni skemmtiferðaskipa sem koma til Íslands. Það er 150 metrar á lengd og 28 metrar á breidd og tekur 245 farþega. Það var smíðað hjá Vard í Rúmeníu og afhent 2021. Það er smíðað til að geta siglt í hafís.
Stærsta skemmtiferðaskip heims er Icon og the Seas, 365 metrar á lengd og 50 metrar á breidd. Það rúmar 10.000 manns í heildina. Stærsta skemmtiferðaskip sem hefur komið til Íslands er MSC Virtuosa. Það er í eigu MSC Cruises og er 181.151 brúttótonn að stærð, 331 metri á lengd. Skipið tekur 6.334 farþega og í áhöfn eru 1.704 farþegar.
Í Fiskifréttum sem koma út í fyrramálið er fjallað um þá áhættu sem tekin er í umhverfis- og öryggismálum vegna siglinga stórra skemmtiferðaskipa á norðurslóðum í aðsendri grein eftir Eirík Sigurðsson skipstjóra.