Tillaga Matvælastofnunar að rekstrarleyfi til handa Thor Landeldi ehf. fyrir allt að 13.150 tonna landeldi, seiða- og áframeldi vestan við Þorlákshöfn liggur nú fyrir.

Í tillögu Matvælastofnunar segir að gert sé ráð fyrir að á gildistíma leyfisins skuli fara fram vöktun og rannsóknir af hálfu rekstrarleyfishafans til að meta vistfræðileg áhrif á nánasta umhverfi eldisstöðvarinnar. Skrá skuli varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings á fiski skráðar. Gera þurfi áætlun um aðgerðir til að endurheimta fisk sem sleppur.

Viðbragðsáætlun vegna stroks

„Leyfishafi skal sjá til þess að viðbragðsáætlun vegna stroks sé staðsett á eldissvæðinu og kynna starfsmönnum hana. Rekstrarleyfishafi sem missir fisk úr fiskeldisstöð, skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Fiskistofu, Matvælastofnunar, sveitafélaga og næstu veiðifélaga. Rekstrarleyfishafi ber skyldu til að halda skrá yfir uppruna eldislaxa sem byggir á gagnagrunni um erfðaefni hjá framleiðanda hrogna.

Þá segir að gildistaka rekstrarleyfisins sé háð því að leyfi til framkvæmda sé til staðar. Einnig þurfi nýtingarleyfi Orkustofnunar.

„Gildistaka rekstrarleyfis fiskeldisstöðva á landi er háð úttekt Matvælastofnunar og því skilyrði að stöð sé útbúin búnaði sem kemur í veg fyrir að fiskur sleppi úr eldiskari og búnaði staðsettum í frárennsli stöðvar sem fangar fisk sem sleppur,“ segir Matvælastofnun.

Umfangsmikil grunnvatnsvinnsla skoðuð

Í umsögn Skipulagsstofnunar vegna leyfisumsóknar Thors landeldis segir að stofnunin hafi leitað umsagnar Sveitarfélagsins Ölfus, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Landsnets, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Veitna ohf. Þess utan hafi verið fengið sérfræðiálit Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors við jarðvísindadeild Háskóla Íslands vegna umfangsmikillar grunnvatnsvinnslu.

Þarf 21 megavatt fullbyggð

Skipulagsstofnun vitnar til umhverfismatsskýrslu Thors Landeldis þar sem fjallað er um áform fyrirtækisins um eldi á 20.000 tonnum af laxfiskum á ári við fullan rekstur, þar af 500 tonna seiðaeldi. Heildarlífmassi í stöðinni geti orðið 13.000 tonn af laxfiski og 150 tonn af seiðum.

„Fram kemur í umhverfismatsskýrslu að framkvæmdasvæðið sé staðsett innan skipulagðs iðnaðarsvæðis á um 20 ha lóðum, 2,5 km vestan við jaðar þéttbýlisins í Þorlákshöfn. Fyrir utan eldi á laxi verður sótt um leyfi fyrir eldi á regnbogasilungi og bleikju. Heildarflatarmál mannvirkja verður 50.204 m², þar af verða eldisker um 33.000 m², seiðaeldisstöð 4.000 m², sláturhús 4.000 m² auk smærri mannvirkja sem þjóna rekstrinum. Eldisstöðin mun þurfa 21 MW af raforku á ári þegar hún er fullbyggð. Samtals þarf um 20.500 tonn af fóðri árlega fyrir fullan rekstur.“