Rekstur þriggja félaga sem íslenska fyrirtækið Novo ehf. á í Frakklandi og selja og dreifa sjávarafurðum í Frakklandi gengur vel. Þau hafa náð sterkri stöðu þar á markaðnum að sögn Guðmundar Stefánssonar framkvæmdastjóra.

Novo ehf. var stofnað fyrir nítján árum og er í eigu Guðmundar og eiginkonu hans, Þóru Völu Haraldsdóttur, og hjónanna Sigurðar Péturssonar og Ingibjargar Valgeirsdóttur.

Guðmundur, sem nú hefur búið og starfað í Frakklandi í 22 ár, segir markaðinn þar hafa tekið örum breytingum á næstliðnum árum, sérstaklega frá og með heimsfaraldrinum sem byrjaði fyrir fimm árum.

Framleiðslan þrefaldast

„Eftir Covid þá tekur ferskur fiskur pakkaður í neytendaumbúðir til sjálfsafgreiðslu alltaf stærri og stærri hlut af markaðnum og hann minnkar að sama skapi í gegnum fiskborðin. Það er bæði út af þægindum fyrir fólk og vegna þess að verslunarmynstrið hefur verið að breytast hérna í Frakklandi undanfarin ár. Það er að draga mjög úr þessum svokölluðu hyper-mörkuðum og í staðinn koma minni verslanir sem hafa þá minna pláss,“ segir Guðmundur.

Framleiðsla í neytendapakkningum hefur gengið ágætlega að sögn Guðmundar og vaxið mikið undanfarin ár. Frá því að Novo tók yfir verksmiðju þar ytra um mitt ár 2018 hafi framleiðslan þrefaldast.

Hátt verð fælir frá

Allir markaðir eru nú að leita að þorski, segir Guðmundur Stefánsson hjá Novo Food.
Allir markaðir eru nú að leita að þorski, segir Guðmundur Stefánsson hjá Novo Food.

„Við erum að framleiða og senda frá okkur pakkaða vöru sem er hátt í tvö þúsund tonn á ári. Við erum heldur meira í hvítfiski, aðallega þorski og síðan erum við stór í laxi á þessum markaði líka,“ segir Guðmundur. Langmest sé um að ræða pakkningar með um 200-300 grömm af fiski. Þær stærðir henti best í verslanirnar. Á kynningum og útsölum séu pakkningar stærri.

Aðspurður segir Guðmundur að fiskneysla í Frakklandi hafi ekki aukist samfara þessu breytta mynstri í sölunni.

„Það hefur nú frekar dregið úr fiskneyslu hér undanfarin ár. Það er fyrst og fremst vegna þess að fiskur er orðinn heldur dýr fyrir markaðinn og neysla hefur minnkað, sérstaklega á þorski þó að þetta sé alltaf virkilega stór markaður,“ segir Guðmundur. Verðið sé komið yfir ákveðin þolmörk meðal neytenda. „Það er svo sem ekki mikil verðbólga í Frakklandi núna en undanfarin ár var töluverð verðbólga og þá verða neytendur hér mjög verðnæmir.“

Mikið af laxi frá Íslandi

Undir rekstrinum í Frakklandi eru þrjú félög. „Við erum með Boulogne Seafood sem rekur verksmiðju þar sem við pökkum ferskum fiski í neytendapakkningar. Svo erum við með Novo Food sem sérhæfir sig í að kaupa inn fisk frá Íslandi og annars staðar frá og selja áfram án þess að vinna hann neitt frekar. Þriðja fyrirtækið er svo Nordvik sem er meira í dreifingarhlutanum af okkar starfsemi og selur ferskan og reyktan fisk inn á minni kúnna.“

Félag þeirra heima á Íslandi, Novo ehf., var meðstofnandi fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish en er ekki lengur meðal hluthafa þar að sögn Guðmundar. „En við erum að kaupa gífurlegt magn af laxi frá Íslandi, um 1.500 tonn á ári,“ segir hann. Þetta sé þeim mjög mikilvægur markaður.

„Við erum að taka mest af hvítfiski frá Íslandi en einnig frá Skotlandi, Bretlandi, Noregi, Danmörku og Póllandi eða bara þar sem við náum í hann. Laxinn kaupum við mest frá Íslandi en einnig frá Noregi, Færeyjum og Skotlandi,“ segir Guðmundur.

Áskorun að útvega hráefni

Viðvarandi aukning hefur verið í eftirspurn eftir laxi víða um lönd og Guðmundur segir markaðsstöðuna sterka í Frakklandi.

„Laxinn hefur haldið sínu, sérstaklega á þessu ári því verð á laxi hefur verið tiltölulega hagstætt og stöðugt sem er öfugt við undanfarin ár þar sem verð var gífurlega hátt fyrstu mánuði ársins. Það hefur ekki gerst núna og á þessu ári mun laxinn örugglega taka meiri markaðshlutdeild hér. Frakkland er gífurlega stór markaður fyrir lax, sá stærsti í Evrópu, hvort sem talað er um ferskan eða reyktan lax,“ undirstrikar Guðmundur.

Spurður um áskoranir fram undan svarar Guðmundur að þær felist í því að ná í það magn af hráefni sem þurfi inn í pípur starfseminnar. Það gildi sérstaklega um hvítfiskinn.

„Það var feikilegur niðurskurður á á kvóta í Barentshafi og þess vegna er ekki eins mikið framboð af þorski, allir markaðir eru að leita að þorski. Þannig að helsta áskorunin er kannski að hafa gott og öflugt aðgengi að hráefni og það hefur gengið vel hjá okkur. Við erum með mjög góða samstarfsaðila á Íslandi en auðvitað eru alltaf sveiflur í þessu,“ segir Guðmundur.

Mögulega í betri samkeppnisstöðu

Nú þegar Bandaríkjamenn hafa tilkynnt tolla á vörur frá öllum löndum vaknar sú spurning hvort í því geti falist tækifæri fyrir félög sem kaupa fisk í Evrópu.

„Það er erfitt að segja til um það en auðvitað má segja að við verðum í aðeins betri samkeppnisstöðu að ná í fisk ef það þarf að borga toll inn á Bandaríkin. Ég reikna með að það verði erfitt að koma því út í verðið,“ segir Guðmundur. Verið geti að einhver tilfærsla verði á útflutningi frá Íslandi vegna þessa. „En hvort það verður eitthvað sem skiptir máli er of snemmt að segja til um. Það á eftir að koma í ljós.“

Aðspurður segir Guðmundur engar stórar breytingar í farvatninu hjá Novo. Haldið verði áfram þeirri uppbyggingu sem þegar sé orðin. „Við erum komin í mjög góða stöðu hér á markaðnum og skiptum við allar helstu smásölukeðjurnar, bæði „bulk“ vöru sem fer í fiskborðin og pakkaða vöru sem fer í sjálfsafgreiðsluhillur. Við þurfum náttúrlega að hafa okkur alla við að ná því magni sem við þurfum inn í okkar pípur. Það er því mikilvægt að vera með góða samstarfsaðila, það er það sem skiptir mestu máli,“ segir hann.

Það eru því verðmæt viðskiptasambönd í húfi sem leggja þarf rækt við til að halda lifandi. „Þetta er eins og í öllum viðskiptum, það gerist ekkert af sjálfu sér,“ bendir Guðmundur Stefánsson á að lokum