„Þetta er bara nudd en þetta mjatlast,“ sagði Friðleifur Einarsson, skipstjóri á Helgu Maríu RE, er hann var á veiðum úti fyrir Vestfjörðum í gær. Fleiri skip voru þá á svæðinu.
„Það eru allir að leita að ufsa,“ sagði Friðleifur eða Leifur eins og hann er jafnan kallaður. Aðallega væri verið að leita að ufsa.
„Það er að koma dýrvitlaust veður þannig að mér líst illa á þetta,“ svaraði Leifur spurður um framhaldið. „Þetta er ekkert nýtt, það er að koma vetur.“
Sagðist Leifur búast við að menn myndu koma sér undan veðrinu og nú stefnir Helga María einmitt til hafnar í Reykjavík. Þangað var upphaflega áætlað að koma ekki fyrr en á fimmtudaginn.
Leifur kvaðst ekki horfa lengra fram í tímann hvað veturinn snerti. „Ég hugsa nú ekkert út í það. Ég læt hverju degi nægja sína þjáningu,“ sagði skipstjórinn.