Pétur Björnsson hefur lengi tengst sjávarútvegi. Undanfarna áratugi hefur hann rekið Kuldabola í Þorlákshöfn, fyrirtæki sem býður þar meðal annars upp á löndunarþjónustu, íssölu og frystivörugeymslu.

Fyrirtækið var upphaflega stofnað árið 1984, og hét þá Ísfélag Þorlákshafnar hf.

„Það var stofnað til að reisa og reka ísverksmiðju,“ segir Pétur. „Þarna voru nokkuð margir hluthafar, en árið 1998 var ákveðið að fara út í byggingu á frystivöruhóteli sem var tekið í notkun rétt fyrir jólin 1999. Þá kem ég að þessu. Þetta var mikil fjárfesting og það var verið að safna hluthöfum í þetta. Ég keypti smá hlut, tók fljótlega sæti í stjórninni og síðar stjórnarformennsku sem ég gegni ennþá. Samhliða því hef ég verið framkvæmdastjóri í hlutastarfi enda með gott fólk á staðnum sem ég reyni að hitta vikulega."

Frystigeymslan fékk nafnið Kuldaboli. Pétur segir nafnið kallast á við frystigeymsluna hjá Brim úti í Örfyrisey. Hún heitir Ísbjörninn: „Það var ísbjörninn sem Jón Gnarr lofaði Reykjavíkingum áður en hann varð borgarstjóri. Nei, ég segi svona,“ og blaðamaður var smá tíma að kveikja á gríninu.

„Hluti af frystigeymslunni var reyndar stúkaður af sem kæligeymsla því þarna voru áform um að kæliskip sem hét Florinda myndi sigla með saltfisk frá Þorlákshöfn. Þarna yrði þá söfnunarstöð fyrir saltfisk, sem yrði geymdur í kæligeymslunni í Kuldabola. Ég held að það skip hafi komið einu sinni þannig að fljótlega var bara keyrt frost á þann hluta líka og þetta hefur verið ein frystigeymsla síðan.“

Náðist upp úr lægðinni

Pétur segir reksturinn reyndar hafa gengið illa fyrstu árin eftir að geymslan var tekin í notkun.

„Nýtingin á henni var langt undir því sem menn höfðu gert ráð fyrir, þannig að alltaf var verið að redda málunum. Einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég tók talsvert meiri þátt í því en aðrir.“

Félagið náði sér þó upp úr þeirri lægð.

„Við lentum reyndar í hremmingum í hruninu en náðum samningum þar um, og félagið er ennþá á upprunalegri kennitölu og stendur mjög vel. Þetta er skuldlaust fyrirtæki með veltu upp á 200 milljónir á ári.

Pétur Björnsson, framkvæmdastjóri Kuldabola í Þorlákshöfn. MYND/Aðsend
Pétur Björnsson, framkvæmdastjóri Kuldabola í Þorlákshöfn. MYND/Aðsend

  • Pétur Björnsson, framkvæmdastjóri Kuldabola. MYND/Aðsend

Starfsemi Kuldabola er nú þríþætt. Auk ísverksmiðjunnar, sem fyrirtækið var upphaflega stofnað um, og frystigeymslunnar er Kuldaboli einnig með löndunarþjónustu sem einkum sinnir fiskiskipum sem landa í Þorlákshöfn.

„Svo erum við með uppskipun og afgreiðslu á áburði fyrir alla helstu innflytjendur á áburði,“ segir Pétur.

Mesta törnin á vorin

Fastir starfsmenn eru sjö en á vorin, þegar mikil törn er í löndunum, er kallað á aukamannskap, yfirleitt fimm til átta manns.

Frystigeymslan er afar tæknivædd og hentar til geymslu á frystivöru til lengri eða skemmri tíma, með fullkomið stjórnkerfi sem heldur kælingunni stöðugri og sérútbúið skoðunarherbergi til gæðaeftirlits.

Félagið er enn í vexti og áform eru um að byggja vélageymslu á ónotaðri lóð sem fyrirtækið á við hliðina á Kuldabola.

„Það er í undirbúningi að byggja þar 900 fermetra vélageymslu og bæta aðstöðuna.

Við reiknum með því að það verði byrjað á því núna á haustdögum.“

Hlekkur í keðjunni

Pétur segir að þótt starfsemin sé vissulega ekki umsvifamikil þá sé hún hlekkur í keðjunni, mikilvæg sem slík.

Kuldaboli getur framleitt 70 tonn af ís á dag, en ísverksmiðjur séu víða um land og almennt hafi íssalan farið minnkandi.

„Bæði hefur útgerð minnkað, skipum á svæðinu hefur fækkað og síðan eru mjög mörg skip komin með krapavélar um borð og þá þarf ekki að taka ís. En síðan frystigeymslan reis rétt fyrir aldamótin þá hefur starfsemin tiltölulega lítið breyst.“

Áður en Pétur gekk til liðs við Kuldabola hafði hann búið árum saman í Englandi þar sem hann var með fyrirtækið Ísberg.

„Ég átti heima þar í 16 ár, frá 1981 til 97. Þetta var fyrirtæki sem seldi mikið af ísfiski á þeim árum, bæði þegar skipin sigldu út með fiskinn og eins þegar gámaævintýrið stóð yfir.“