Félag skipstjórnarmanna hefur lýst áhyggjum liðsmanna sinna af „mikilli fjölgun hvala“ og skorað á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra að heimila strax hvalveiðar. Líklega sé þessi fjölgun ástæða þess að engin loðnuvertíð hafi verið síðastliðið haust og vetur.

„Afleiðingar þess að hvalir eru ekki veiddir eru alvarlegar fyrir lífríkið í hafinu, auk þess sem milljarða atvinnutekjur fólks og útflutningstekjur tapast. Ef hvalveiðar verða ekki leyfðar, þá er augljóst að nytjastofnar okkar munu bera skaða af,“ segir í áskorun aðalfundar Félags skipstjórnarmanna.

Ráðherrar beiti ofbeldi

Árni Sverrisson, formaður félagsins, sagði frá þessari áskorun í ávarpi sínu á sjómannadaginn í Hörpu. Þar sagði Árni ráðherra nær undantekningarlaust hafa farið eftir ráðgjöf vísindamanna, nema varðandi hvali.

„Þar hafa ráðherrar Vinstri grænna beitt fólk og fyrirtæki ofbeldi með því að gefa ekki út leyfi til hvalveiða. Ofbeldi þar sem lög og reglur eru brotin, sem mun skapa ríkissjóði skaðabótaskyldu,“ sagði Árni í ræðu sinni og bætti við að í íþróttum væri fólk sem brjóti reglur, þvælist fyrir og tefji rekið út af.

Hnúfubakar ekki að komnir til að sóla sig

Í samtali við Fiskifréttir bendir Árni að hann hafi síðast verið skipstjóri hjá Hafrannsóknastofnun og farið fjölda marga leiðangra bæði sem skipstjóri og stýrimaður.  Árið 1956 hafi hnúfubakur verið alfriðaður og hafi ekki verið við strendur Íslands á veturna fyrr en fyrir tíu til tuttugu árum.

„Í dag er þessi hvalur inn um alla firði og flóa allan ársins hring. Hann er ekkert að sóla sig eða sýna fyrir túristum, hann er að éta,“ segir Árni um hnúfubakinn. „Og það er talið að langreyðarstofninn sé um fjörutíu þúsund dýr sem éti um þrettán og hálfa milljón tonna á ári af átu og fiski.“

Ræða ekki mestu áhrifin

Árni segir alla sjá hvað sé að gerast. „Fyrir fimmtán til tuttugu árum voru menn ræstir ef það sást hvalur en í dag sérð þú þá nánast alls staðar,“ segir hann um fjölgun hvala.

HvalveiHvalveiðiskipin liggja aðgerðarlaus í Reykjavíkurhöfn og eigandi Hvals hf. hefur sagt ekkert verða úr vertíð þetta sumarið. FF Mynd/Garðarðiskip í Reykjavíkurhöfn 31. mai 2024 Mynd Garðar
HvalveiHvalveiðiskipin liggja aðgerðarlaus í Reykjavíkurhöfn og eigandi Hvals hf. hefur sagt ekkert verða úr vertíð þetta sumarið. FF Mynd/Garðarðiskip í Reykjavíkurhöfn 31. mai 2024 Mynd Garðar

„Það hefur skort á umræðu um þetta,“ segir Árni. Þetta sé miklu alvarlegra en áhrifin af hvalveiðibanni á áhafnir hvalveiðiskipa og þeirra sem starfi við vinnsluna í landi. „Á einhverjum tímapunkti fer þetta að hafa áhrif á nytjastofna okkar. Andstæðingar hvalveiða benda á að það sé engin önnur þjóð að veiða hvali en það hefur engin önnur þjóð jafn mikla hagsmuni af því að veiða hvali eins og við.“

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er um veiðar á 161 langreyði. Það hljómar ef til vill eins og dropi í hafið af fjörutíu þúsund dýra stofni sé ætlunin að draga úr fæðuáti þessarar tegundar.

Fælingarmáttur veiða

„Ég er ósammála þeim sem segja að það skipti engu máli að veiða 161 dýr því það eru líka ákveðin fælingaráhrif á hvalina þegar hvalveiðibáturinn kemur og skýtur hval. Það stuggar við þeim og fælir af slóðinni,“ segir Árni sem tekur jafnframt fram að hann hafi heyrt vísindamenn segja að stofninn þoli meiri veiði. Hann telji markað fyrir meira hvalkjöt.

„Þarna er auðlind sem er engum til gagns, sem syndir um í höfunum og er að valda skaða. Ef ekkert verður að gert þá mun þetta vandamál stækka,“ segir Árni sem kveður engin svör fást frá matvælaráðuneytinu um það hvað sé endalaust verið að skoða þar á bæ.

„Það er verið að senda út beiðni um umsagnir til sextán aðila og  ég gæti sagt hverju hver og einn mun svara. Skoðun þeirra liggur fyrir.“

Fram kom í samtali RÚV við matvælaráðherra í gær að hún reiknaði með að ákvörðun um það hvort hvalveiðar verði leyfðar í sumar eða ekki liggi fyrir í þessari viku.