Hafrannsóknastofnun hefur tekið saman helstu niðurstöður stofnmælingar botnfiska að haustlagi. Eru þær afrakstur leiðangur sem farinn var 27. september til 29. október síðastliðinn að því er segir á vefstofnunarinnar.
„Í ár tóku togararnir Breki VE-61 og Þórunn Sveinsdóttir VE-401 þátt í verkefninu ásamt rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni HF-200. Í skýrslunni er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum og þær bornar saman við fyrri ár. Verkefnið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti frá árinu 1996.
Svipuð stofnvísitala þorsks
Stofnvísitala þorsks er svipuð og undanfarin þrjú ár og er yfir meðaltali áranna 1996-2024. Yngsti árgangur þorsks mælist undir meðalstærð í fjölda en 1 árs þorskur er hins vegar nálægt langtímameðaltali. Meðalþyngdir flestra árganga þorsks mældust undir meðaltali áranna 1996–2024. Stofnvísitala ýsu er há líkt og tvö síðustu ár og sýnir hraða stækkun stofnsins í kjölfar góðrar nýliðunar. Árgangar ýsu sem nú eru 3–5 ára mælast yfir meðalstærð en árgangar 0–3 ára undir meðalstærð í fjölda.
Líkt og hjá þorski mælast meðalþyngdir flestra árganga undir meðaltali.
Vísitala grálúðu er undir langtímameðaltali en vísbendingar eru um bætta nýliðun. Vísitala gullkarfa lækkaði frá því í fyrra en vísitala djúpkarfa er hærri en árin tvö á undan. Nýliðun þessara tveggja stofna hefur verið lítil sem engin um árabil. Vísitala ufsa er undir langtímameðaltali. Vísitala blálöngu er undir langtímameðaltali en vísitala gulllax mælist há og langt yfir meðaltali áranna 1996-2024.
Litlar breytingar eru í vísitölum ýmissa annarra nytjategunda frá því í fyrra og má þar nefna þykkvalúru, steinbít, hlýra, löngu og keilu. Vísitala hlýra er enn langt undir langtímameðaltali. Vísitala ýmissa kaldsjávartegunda heldur áfram að lækka og er áberandi lág í nokkrum tegundum.
Sjávarhiti
Síðustu ár hefur botnhiti sjávar á grynnstu stöðvunum (1–200 m) hækkað fyrir vestan og sunnan, en farið lækkandi fyrir norðvestan og norðaustan. Greina má lítils háttar hækkun á meðalhita við botn í kalda djúpsjónum (> 400 m) fyrir norðvestan og norðaustan land,“ segir á vef Hafrannsóknastofnunar.
Hér má sjá skýrsluna um stofnmæling botnfiska að haustlagi 2024 - Framkvæmd og helstu niðurstöður