Sverrisútgerðin í Ólafsvík tók á dögunum á móti splunkunýjum Cleopatra 33 bát frá Trefjum, Glað SH 226. Gísli Marteinsson skipstjóri sigldi honum úr Hafnarfjarðarhöfn til Ólafsvíkur 22. desember síðastliðinn. Gísli lætur vel af bátnum og segir mikinn mun á honum og eldri Cleopatra 31 bát sem sá nýi leysir af hólmi. Það jaðri þó við fífldirfsku að fara út í svona fjárfestingu en að teknu tilliti til alls hafi það þó verið það skynsamlegasta í stöðunni.
Góð reynsla af bátum frá Trefjum
Staðan var nefnilega sú að vélin gaf sig í eldri Glað. Hann var kominn af léttasta skeiði, orðinn 23 ára gamall og einnig smíðaður af Trefjum. Sverrisútgerðin hafði góða reynslu af bátum frá Trefjum og ofan á varð að kaupa nýjan Cleopatra 33.
Marteinn Gíslason og Erla Ormsdóttir, foreldrar skipstjóranna Gísla og Örvars Marteinssona, stofnuðu Sverrisútgerðina á sínum tíma og gerðu þá út einn bát, Sverri SH. Núverandi Sverrir er sá fjórði með því nafni og honum stýrir Örvar. Fyrsti bátur útgerðarinnar sem hét Glaður var keyptur í kringum 1990. Nýi Cleopatra 33 báturinn er þriðji bátur Sverrisútgerðarinnar sem ber það nafn og honum stýrir Gísli.
Allt til alls
„Það var ljómandi góð upplifun að sigla nýja bátnum vestur. Þetta er vönduð vara og eiginlega allt til alls í þessum bátum. Það þarf heilmikið rafmagn fyrir allan þennan búnað. Ganghraðinn er allt að 18 mílur við góðar aðstæður. Það er þó misjafnt hve langt þarf að sækja fiskinn. Þó má nefna að strandveiðimenn keyra allt að 90 mílur út til þess að ná í skammtinn á sumrin. En á vorin er oft vænn fiskur hérna um allar fjörur og fyrir vestan nes. En ég er ennþá bara rétt aðeins búinn að liðka mig á nýja bátnum, fara einar fjórar ferðir,“ segir Gísli.

Vilja aukið veiðarfærafrelsi
Sverrir SH og Glaður SH eru í krókaaflamarkskerfinu og segir Gísli kvótastöðuna ágæta. Þeir bræður hafa þó báðir barist fyrir auknu veiðarfærafrelsi, ekki síst Örvar á vettvangi Samtaka smærri útgerða þar sem hann er formaður. Baráttan snýst um að krókaaflamarksbátar fái að veiða í þorsknet í ljósi þess að þeir greiða sömu auðlindagjöld og aðrir en ólíkt öðrum mega eingöngu veiða á króka.

Talsmaður breytinga
„Ég reikna ekki með að það verði farið að veiða að nokkru gagni fyrr en það kemur loðna. Þá lifnar yfir veiðum á þessum stóra fiski. Loðnan kemur örugglega hingað jafnvel þótt hún finnist ekki í loðnuleit og enginn kvóti verður gefinn út. Hún kemur alltaf í einhverju magni en þá deyr líka línuútgerðin. Í venjulegu loðnuárferði er línan alveg glatað veiðarfæri hérna í Breiðafirðinum. Þorskurinn er þá í svo miklu æti að hann lítur ekki við krókunum. Þá reynum við að halda uppi vinnu með því að veiða steinbít. En við þessar aðstæður væri gott að geta hent niður netadruslu, fyllt hana og dregið nánast samdægurs fulla af úrvals hráefni,“ segir Gísli.

Núverandi kerfi ekki umhverfisvænt
Gísli hefur líka verið talsmaður breytinga á strandveiðikerfinu á þann veg að mönnum verði gert kleift að landa stærri skömmtum en nú er.
„Það er ekki beinlínis umhverfisvænt að eyða 250 lítrum af olíu fyrir tæp 800 kíló af fiski. Í einfaldleika sínum ætti kerfið að byggjast á einum potti sem menn sækja um að veiða úr og heimildunum er deilt niður á umsækjendur. Þeir geti síðan sótt fiskinn þegar þeim hentar og geta komið með meira að landi úr hverjum túr. Þá væru menn ekki bundnir við einhverja tiltekna daga og ekki allir á sjó á sama tíma sem myndi væntanlega skapa stöðugra fiskverð.“
Öllum fiski frá Sverrisútgerðinni er landað á markaði í Ólafsvík, afla Glaðs hjá Fiskmarkaði Íslands og afla Sverris hjá Fiskmarkaði Snæfellsness.
„Þetta gefur okkur tækifæri að bera saman verðin og það skeikar oft talsverðu en það leggst þó alltaf út á jöfnu,“ segir Gísli.
Glaður SH 226
Gerð: Cleopatra 33
Útbúnaður: Búinn út til neta-, línu- og handfæraveiða.
Handfærarúllur: DNG
Lengd: 9,9 metrar
Þyngd: 11 brúttótonn
Lest: 8 stk. 660 lítra fiskikör
Aðalvél: John Deere 6090, 550 hö, tengd ZF286IV gír
Siglingatæki: Furuno/MaxSea frá Vestan ehf.
Skrúfur: Vökvadrifnar hliðarskrúfur að framan og aftan sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins
Öryggi: Lífbátur og annar öryggisbúnaður frá Viking
Innréttingar: Demparastólar í brú fyrir skipstjóra og háseta, fullbúin eldunaraðstaða í brú, fullbúin eldunaraðstaða í lúkar, svefnpláss fyrir tvo.