„Þetta er auðvitað systurskip Runólfs sem við eigum fyrir. Þessi skip eru alveg nákvæmlega eins og það er ákveðin hagræðing í því,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar hf. í Grundarfirði, sem er að kaupa togarann Sturlu GK 12 frá Þorbirni í Grindavík.

Sturla á að leysa af hólmi togarann Hring SH 153 sem er tíu árum eldra skip. „Á þessum skipum er bæði aldursmunur og tæknimunur,“ segir Guðmundur. „Sturla tekur bara við af Hring og fer að veiða fyrir vinnsluna hér númer eitt, tvö og þrjú.“

Verðið trúnaðarmál

Sturla GK 12 dreginn upp í gær. Mynd/Garðar
Sturla GK 12 dreginn upp í gær. Mynd/Garðar

Sturla var tekin upp hjá Slippnum í Reykjavík í gær og fer þaðan væntanlega sem Guðmundur SH 235 að lokinni söluskoðun sem áskilin er samkvæmt samningi um kaupin. Verðið á skipinu er trúnaðarmál.

Guðmundur segir nokkurn aðdraganda hafa verið að viðskiptunum. Hann eigi ekki von á öðru en að Sturla standist skoðunina. „Það þarf að gæta að ákveðnum öryggisatriðum og ef það er allt í sómanum þá fer hann bara niður strax,“ segir hann. Skipið verði ekki málað. Það eina sem þurfi að gera sé að skipta um nafn og númer.

Unnið fram að helgi

„Hann fer bara á sölu,“ svarar Guðmundur síðan spurður hvað verði um Hring. „Hann er orðinn 27 ára en Sturla er smíðaður 2007.“ Tíu ára aldursmunur er því á skipunum tveimur, eins og áður sagði.

Almennt segir Guðmundur allt gott að frétta af starfseminni hjá Guðmundi Runólfssyni. Síðasta löndunin fyrir jól hafi verið í gær, þriðjudag og að fiskur verði unnin í vinnslunni fram að helgi. „Og þá er komið jólafrí fram yfir áramót.“

Sturla smíðaður í Póllandi

Skuttogarinn Sturla GK 12 er smíðaður árið 2007 í Gydnia í Póllandi. Vélin er Yanmar 2006. Mesta lengd er 28,93 metrar og mesta breidd 10,39 metrar.

Nóta- og togveiðiskipið Hringur SH 153 er smíðað hjá skosku skipasmíðastöðinni M.C. Fabrikations árið 1997. Mesta lengd er 28,99 metrar og mesta breidd 9,3 metrar.