Tólf strandveiðisjómenn úr strandveiðifélaginu Krók komu saman og afhentu Smára Gestssyni, umsjónarmanni björgunarskipsins Varðar II, styrk uppá 7,5 milljónir til Björgunarbátasjóðs Vestur-Barðastrandarsýslu.
Á myndina að ofan vantar Grétar Guðfinnsson og Gísla Sverrisson sem ásamt hópnum á myndinni styrkja kaupin á nýjum Verði II um 100 þúsund krónur á ári næstu fimm árin. Þá styrkir Strandveiðifélagið Krókur kaupin um 300 þúsund krónur á ári næstu fimm ár.
Í færslu á Fésbókarsíðunni Strandveiði- og ufsaspjallið eru félagsmenn Króks sem og aðrir sem vilja og eða hafa hag að öflugu björgunarskipi á svæðinu hvattir til að bætast í hópinn.
Í gær var greint frá því í Fiskifréttum að útgerðarfélagið Oddi hf. á Patreksfirði hefði ákveðið að styrkja Björgunarbátasjóð Vestur-Barðastrandasýslu um 30 milljónir til endurnýjunar á björgunarskipi fyrir svæðið. Hjá Odda hf. starfa 15 sjómenn og er því um að ræða upphæð sem samsvarar 2 milljónum á hvern sjómann.
Vörður þjónustar svæði 6 sem nær frá Arnarfirði að Kollafirði á sunnanverðum Vestfjörðum. Nýtt björgunarskip er búið betri tækjum til leitar og björgunar og mun auka til muna viðbragðstíma. Fjármögnun skipsins skiptist á milli ríkissjóðs, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Björgunarbátasjóðs Vestur-Barðastrandarsýslu. Heildarkostnaður við smíði skipsins er 340 milljónir króna og það sem fellur í hlut Björgunarbátasjóðs Vestur-Barðastrandarsýslu eru 85 milljónir króna. Áfromað er að nýtt björgunarskip verði afhent 2026.