Strandveiðifélag Íslands hefur boðað til mótmæla í miðbæ Reykjavíkur næsta laugardag vegna stöðvunar veiðanna.
Þetta kemur fram í frétt RÚV þar sem haft er eftir Kjartani Páli Sveinssyni, formanni Strandveiðifélags Íslands, að verið sé að „mótmæla þessari ótímabæru stöðvun strandveiða annað árið í röð,“ eins og hann orðar það.
„Og viljum í rauninni fá einhverjar viðbætur núna en líka að kerfið verði lagað, svo að þetta gerist ekki ár eftir ár,“ segir Kjartan við RÚV. Mikil samstaða sé meðal strandveiðimanna og á von á góðri mætingu á mótmælin „Þótt sumir þurfi jafnvel að keyra í marga klukkutíma til að komast á staðinn,“ eins og hann segir.
„Ég held að reiðin sé það mikil að fólk kemur. Við vorum að tala um það að við vorum að funda með fólki á Neskaupstað fyrir tveimur vikum síðan og þeir ætluðu nú bara að leigja rútu og koma,“ segir formaður Strandveiðifélags Íslands við RÚV.