Um margt hefur árið 2023 verið óvenjulegt hjá Sigurgeir Brynjari Kristgeirssyni og samstarfsmönnum hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum enda fyrirtækið staðið í ströngu við kaup á öðrum fyrirtækjum og var stór þátttakandi í einni best heppnuðu loðnuvertíð seinni ára. Svo skilaði fyrirtækið methagnaði á síðasta rekstrarári.

1% bætist við aflaheimildirnar

Binni var ekki á sínum venjubundna kontór í Vinnslustöðinni í Eyjum þegar náðist tal af honum heldur akandi bíl á leið frá Portúgal til Barcelona til að sækja sjávarútvegssýninguna þar í borg sem ný er nýlokið. Margt er undir í rekstri fyrirtækis sem hefur markað sér stöðu í sölu á sjávarafurðum til flestra heimshorna. Með kaupunum á Ós, áður útgerðarfélagi Þórunnar Sveinsdóttur, bættust við tæp 1% af aflaheimildum í þorskígildum talið í safn VSV. Á aðalfundi fyrirtækisins fyrr í mánuðinum var tilkynnt um bestu afkomu í sögu fyrirtækisins á síðasta ári. Hagnaður VSV samstæðunnar var um 2,7 milljarðar króna. Þrátt fyrir góða afkomu var líka tilkynnt að boðuð áform um byggingu 8.000 fermetra botnfiskvinnsluhúss yrði slegið á frest vegna óvissuástands í efnahagsmálum. Eftir kaupin á Ós er hlutfall Vinnslustöðvarinnar af heildar fiskveiðiheimildum rétt rúmlega 5%.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. MYND/ÓSKAR P. FRIÐRIKSSON

Að haga seglum eftir vindi

„Árið 2022 var metár bæði í rekstri og hagnaði. Við erum í miklum fjárfestingum með Ós og Leo Seafood og þess vegna var ákveðið að slá byggingu botnfiskvinnsluhússins á frest. Staðreyndin er auðvitað sú að vextir hafa hækkað gríðarlega mikið og við lifum ekki í þeirri blekkingu að halda að við séum almáttugir. Við þurfum að haga seglum eftir vindi eins og þekkist í sjávarútvegi,“ segir Binni.

Rafgeymar hlaðnir yfir nóttina

Á aðalfundinum kom einnig fram að Vinnslustöðin lætur nú hanna fyrir sig ný skip til að leysa af hólmi Kap og Drangavík til veiða í landhelginni. Við frumhönnun hefur komið á daginn að nýju skipin gætu stundað netaveiðar í dagróðrum við suðurströndina og við Eyjar fyrir rafmagni að hluta. Skipin kæmu til hafnar síðdegis eða á kvöldin og geymar yrðu hlaðnir að nóttu fyrir næsta túr að morgni.

Breki VE er nýjasta skip Vinnslustöðvarinnar. Það var smíðað í Kína og afhent árið 2018. Útgerð þess hefur gengið eins og í sögu. Mynd/Óskar P. Friðriksson.
Breki VE er nýjasta skip Vinnslustöðvarinnar. Það var smíðað í Kína og afhent árið 2018. Útgerð þess hefur gengið eins og í sögu. Mynd/Óskar P. Friðriksson.
© Óskar P. Friðriksson (Óskar P. Friðriksson)

„Við höfum beðið eftir því frumvarp til laga verði lagt fram um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelginni og breytingu á lögum stjórn fiskveiða sem lýtur af aflvísi og orkuskiptum. Á meðan höfum við nýtt tímann til að ígrunda málið. Eftir því sem tímanum vindur fram vindur einnig tækniframförum fram. Herjólfur siglir frá Vestmannaeyjum og til baka frá Landeyjahöfn fyrir rafmagni. Það er ekki útilokað að þessi tækni henti vel þegar við, eitt fárra fyrirtækja á Íslandi, erum á netaveiðum. Orkunotkunin er mjög lítil við netaveiðarnar og mjög auðvelt að stunda þær eingöngu fyrir rafmagni.“

Orkuskortur í Eyjum

Á sama tíma glíma Eyjamenn ekki síður en aðrir landsmenn við takmarkað framboð af raforku. Það komst til að mynda í fréttir að Vinnslustöðin tók á leigu á miðri loðnuvertíð tvær varaaflstöðvar sem keyra fyrir olíu vegna óvissu um afhendingu á raforku til viðskiptavina með samninga um skerðanlega raforku. Auk þess hefur verið ólag á aðalsæstrengnum til Eyja með tilheyrandi óvissu.

„Ég held að menn hafi áttað sig á því aðalsæstrengurinn til Vestmannaeyja er gallaður. Raforkuþörfin er mikil á loðnuvertíðinni og við getum illa búið við þetta óöryggi. Núna þurfum við að vega það og meta hvort við eigum leigja eða kaupa varaaflstöðvar fyrir næsta vetur og brenna meira af olíu.“

Raforkuþörfin í Eyjum á bara eftir að aukast. Þar er verið að reisa 15.000 tonna landeldisstöð í Viðlagafjöru á vegum Icelandic Land Farmed Salmon sem verður stækkanleg í 30.000 tonna framleiðslu. Raforkuþörf slíkrar starfsemi er mikil. Einn eigenda fyrirtækisins er Sigurjón Óskarsson og fjölskylda sem voru eigendur Óss og Leo Seafood.

Óslitin keðja uppsjávarveiða

„Loðnuvertíðin var einstaklega góð. Það var mikið af loðnu, hún var stór, veðrið lék við okkur og loðnan var aðgengileg og veiðanleg. Það óvenjulega við vertíðina var að hún samanstóð af þremur til fjórum göngum. En svo verður ekki litið fram hjá því að framleiðsla á hrognum var svo mikil að það tekur sinn tíma að selja allar afurðirnar. Verð mun líka lækka út af þessu mikla framboði.“

Loðnuvertíð var ekki fyrr lokið í kringum 25. mars en uppsjávarflotinn var undirbúinn fyrir kolmunnaveiðar suður af Færeyjum þaðan sem berast fréttir af góðri veiði. Uppsjávarveiðarnar eru nánast orðin óslitin keðja hinna ýmsu tegunda allt árið í kring og segir Binni þetta magnaða breytingu.

„Strákarnir eru núna við Færeyjar að veiða kolmunna. Það er mikið af honum og hann er auðveiðanlegur. Kolmunnastofninn virðist vera sterkur og við njótum auðvitað góðs af um 70% aukningu í veiðiheimildum milli ára. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur ekki síst í því ljósi að mjölverð er núna í hæstu hæðum.

Vinnslustöðin keypti útgerðarfélagið Huginn 2021 og bættist þá uppsjávarskip með sama nafni í flota VSV.