Hagnaður í sjávarútvegi árið 2021 var um 65 milljarðar króna sem er 36 milljörðum hækkun frá árinu 2020. Miðað við sama verðlag jafnast hagnaðurinn á árinu 2021 við það sem var á árunum 2011, 2013 og 2016. Opinber gjöld sjávarútvegsfélaga námu 22,3 milljörðum 2021 og jukust um tæpa 5 milljarða frá árinu á undan. Þá námu arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja 18,5 milljörðum á síðasta ári. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Jónasar Gests Jónassonar, löggilts endurskoðanda hjá Deloitte, um afkomu í greininni á árinu 2021 á Sjávarútvegsdeginum í byrjun vikunnar.

Tekjur í sjávarútvegi á árinu 2021 jukust um 27 milljarða króna frá árinu 2020, eða um 8,8%. Heildaraflinn jókst um 13% milli ára og munar þar miklu um aukningu í veiðum á síld og góða loðnuveiði á árinu 2021 en engin loðnuveiði var á árinu 2020.

Blönduð uppsjávar- og botnfiskfélög skiluðu mestri framlegð í sínum rekstri á árinu 2021 sem rekja má til góðrar loðnuvertíðar á árinu. Framlegðin var 31% á móti 24% hjá botnfiskútgerð og 22% hjá botnfiskútgerð og vinnslu.

Arðgreiðslur minni

Heildarskuldir lækkuðu í fyrsta sinn á árinu 2021 frá árinu 2017. Á síðasta ári voru heildarskuldir sjávarútvegsfyrirtækja 457 milljarðar króna, en 461 milljarðar á árinu 2020 og lækkuðu skuldirnar því um 4 milljarða milli ára. Fjárfestingar innan sjávarútvegs hafa verið töluvert hærri en afskriftir á undanförnum árum. Fjárfest var fyrir 25 milljarða á síðasta ári og nemur fjárfestingin að jafnaði 23 milljörðum á ári frá árinu 2017.

Arðgreiðslur á árinu 2021 lækkuðu um þrjá milljarða frá árinu 2020, námu alls 18,5 milljörðum króna. Helmingur þessara arðgreiðslna tilheyra skráðum félögum á hlutabréfamarkaði.

Veiðigjöld ársins stefna í 7-8 milljarða

Bókfært eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja hækkaði um 91 milljarð frá árinu 2017 þegar það var 262 milljarðar króna til ársins 2020 þegar það var komið í 353 milljarða króna og voru arðgreiðslur árið eftir 5,2% af bókfærðu eigin fé í árslok 2020. Jónas Gestur benti á að stærstu eignir á efnahagsreikningi sjávarútvegsfélaga séu að sjálfsögðu aflaheimildirnar.

Bein opinber gjöld sjávarútvegsfélaga námu 22,3 milljörðum á síðasta ári og hækkuðu um 4,9 milljarða frá árinu 2020. Þar af nam tekjuskattur 9,2 milljörðum, veiðigjöld 7,9 milljörðum og áætlað tryggingargjald 5,2 milljörðum. Reiknistofn veiðigjalds sem greitt var á síðasta ári, miðast við veiðar á árinu 2019 og var afkoman mun betri það ár en árin 2017 og 2018.

Fyrstu átta mánuði ársins 2022 lítur út fyrir að greiddir verði 4,8 milljarðar króna í veiðigjöld og stefnir í að veiðigjöld ársins verði 7-8 milljarðar króna, samkvæmt útreikningum Deloitte.