Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti NK 123, er fæddur í Reykjavík 29. ágúst 1965 og bjó þar til átta ára aldurs. Þá flutti hann austur í Neskaupstað í kjölfar þess að mikill harmur var kveðinn að fjölskyldunni.

„Faðir minn sem var flugumferðarstjóri og atvinnuflugmaður fórst í flugslysi á Akrafjalli 1971 og var það mikið áfall fyrir fjölskylduna. Árið 1973 lagði móðir mín land undir fót og fór með mig ásamt tveimur yngri bræðrum mínum austur á Neskaupstað, en þar hafði móðir mín alist upp,“ segir Tómas.

Fiskað alla daga á bryggjunni

Fyrir austan tóku bryggjurnar við af borgarstígunum. „Að sjálfsögðu eins og flestir bryggjupollar gera var verið að fiska upp á hvern dag yfir sumartímann,“ segir Tómas.

Síðar kynntist móðir Tómasi manni sem gekk þeim bræðrum í föðurstað. „Sigurjón Valdimarsson hét hann og var hann mikill aflaskipstjóri frá Norðfirði. Sigurjón eða Díi eins og hann var alltaf kallaður var sannkallaður höfðingi.

„Díi var elstur fjögurra bræðra sem allir voru skipstjórar,“ segir Tómas sem kveður þeim bræðrum fljótlega hafa orðið ljóst um hvað lífið snerist – sem hafi að sjálfsögðu verið skip, veiðar og veður.

Fimm bræður á sjó

„Við bræðurnir vorum allir farnir í okkar fyrsta túr tólf ára gamlir til að fylgjast með og prófa vinnuna. Fjölskylduhagir voru þannig að við enduðum sem fimm bræður og vorum allir á einhverjum tímapunkti á sjónum,“ segir Tómas.

Þegar Tómas var á fimmtánda ári byrjaði hann að vinna í Netagerð Friðriks Vilhjálmssonar. Það segir hann í raun hafa verið undirbúning fyrir sjóinn.

„Fljótlega fékk ég síðan fast pláss á Beiti NK. Díi var skipstjóri á skipinu og hafði því nýlega verið breytt þannig að hægt var að fletja og salta fisk um borð. Þetta voru fín uppgrip og fiskaðist yfirleitt vel,“ segir Tómas. Ýmislegt hafi verið gert á gamla Beiti á þeim tíma sem hann var þar.

Góð reynsla á gamla Beiti

Tómas er áhugamaður um flug loðnuleit úr lofti. Meira um það síðar. Mynd/Aðsend
Tómas er áhugamaður um flug loðnuleit úr lofti. Meira um það síðar. Mynd/Aðsend

„Fyrir utan saltfiskinn fórum við á loðnu og þess á milli frystum við karfa og grálúðu og um tíma var stunduð flakavinnsla. Rækjuvinnsla var einnig um tíma á Beiti þar sem rækjan var bæði soðin og fryst um borð. Þetta var mikil og góð reynsla sem maður hafði út úr þessum árum á gamla Beiti. Alltaf var þar hörku áhöfn og rífandi gangur í veiðum. Fyrstu skrefin sem stýrimaður voru með fóstra mínum þar en áður hafði ég leyst af þar sem bátsmaður,“ segir Tómas.

Að loknu stýrimannsnámi 2. stigs 1998 fékk Tómas pláss á Berki NK sem annar stýrimaður. Þar var Sturla Þórðarson skipstjóri og hafði skipið að sögn Tómasar nýlega fengið flotta yfirhalningu og var á þessum tíma framarlega í uppsjávarflotanum.

„Á Berki var góð áhöfn sem hafði unnið lengi saman, var vel slípuð og Sturla kallinn líka laginn. Við gerðum góða hluti þar og fiskuðum eitt árið um 80 þúsund tonn og þar af mest kolmunna,“ rifjar Tómas upp.

Margar fyrirmyndir

Fyrsta loðnuvertíð sína sem skipstjóri segir Tómas hafa verið á Gamla Berki sem þá hét Birtingur NK. Vel hafi fiskast og vertíðin gengið vel. Í framhaldi af þessu hafi hann fengið stöðu sem skipstjóri á skipi sem bar nafnið Beitir en hét áður Polar Amarok. Það sé vel útbúið skip frá Grænlandi smíðað í Noregi 1997.

Beitir NK á kolmunnaveiðum. Mynd/Tómas Kárason
Beitir NK á kolmunnaveiðum. Mynd/Tómas Kárason
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Skipið hafði góðan togkraft, enda með stóra skrúfu með þvermál vel yfir fjóra metra. Árið 2015 var ég síðan ráðinn á nýtt skip Síldarvinnslunnar, sem var einnig nefnt Beitir, og er ekki hægt að segja annað en að maður sé ánægður með það traust sem manni er sýnt með að vera valinn í slíka stöðu. Að sjálfsögðu er ég líka stoltur af því að fá að starfa á skipi sem ber sama nafn og það skip sem fóstri minn stýrði til margra ára við mjög farsælan feril, það er til margs að horfa og margt hægt að taka sér til fyrirmyndar,“ segir Tómas.

Eldri áhafnir með auknu öryggi

Öryggismál eru Tómasi hugleikinn og hann segir aðdáunarvert hvað Slysavarnaskóli sjómanna hafi gert marga góða hluti fyrir sjómenn.

„Hann hefur haldið okkur við efnið í tugi ára og kunna allir honum góðar þakkir. Í dag hafa fyrirtækin einnig tekið vel á viðhaldi öryggismála og slysavarna um borð í skipum sínum og skilar þetta sér allt í færri slysum um borð í skipunum. Það sem er að gerast í dag er að áhafnir eru að eldast, menn endast betur og nýliðun um borð er minni. Um borð í flestum uppsjávarskipum eru þrautreyndar, öruggar áhafnir sem flestar hafa áratuga reynslu,“ segir Tómas.

Á undanförnum árum hefur verið fækkað í áhöfnum uppsjávarskipa samfara tækninýjungum við vinnuaðferðir að sögn Tómasar. „Það getur jafnvel verið hluti af því að slysum hefur fækkað samfara vitundarvakningunni um öryggismálin,“ bendir hann á.

„Tökum sem dæmi toghlera, en í dag má stjórna þeim neðansjávar. Það má velja sér dýpi og fjarlægð milli hlera og jafnvel fjarlægð frá botni. Um borð í hvorum hlera er einhvers konar sjálfstýring sem stýrir hleranum á það dýpi sem valið er. Þetta hentar einstaklega vel þegar veitt er nærri yfirborði þar sem það er alltaf hætta á að missa hlerann upp á yfirborð,“ útskýrir Tómas.

Annar hluti viðtalsins við Tómas birtist hér á vef Fiskifrétta á morgun.