Stjánagengið á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK gerði góðan síðasta túr fyrir slipptöku og var veiðin í þessum mánaðarlöngu veiðiferð rúm 800 tonn upp úr sjó og aflaverðmætið nálægt 280 milljónum króna.
Stjánagengið er kennt við Kristján Ólafsson skipstjóra sem rær á móti Vali Péturssyni skipstjóra og Valsgenginu. Kristján og áhöfn hans er komin í langt jólafrí því skipið er nú við kaja á Akureyri og verður þar næstu vikurnar meðan skipt er um frystikerfi. Farið verður úr freón kælimiðli yfir í ammóníak og framkvæmd af slíku tagi tekur að jafnaði 6-8 vikur.
„Bjartsýnustu menn halda að við fáum hann fyrir jól þannig að við getum farið á veiðar aftur í janúar en svo gæti teygst úr þessu fram yfir jól og þá færum við af stað aftur um miðjan janúar. Það er verið að úthýsa freón og þetta hefur gengið undanfarin ár á undanþágum en nú verður ekki undan því vikist að skipta um kælimiðil,” segir Kristján.
Áætla má að kostnaður útgerðarinnar við þessa breytingu verði á bilinu 200-300 milljónir króna. Þetta er kostnaðarsamt en skipið og áhafnir þess hafa líka skapað útgerðinni mikil verðmæti.
Mikill brælutúr
„Við reynum hvað við getum og þessir tveir síðustu túrar hafa lukkast ágætlega. Við vorum með 804 tonn upp úr sjó í síðasta túr. Þetta var reyndar mikill brælutúr. Við vorum fyrst í þrjá daga í Grindavíkurdýpinu og komumst ekki vestur fyrir brælu. Svo náðum við þremur dögum fyrir vestan en lágum svo í tvo daga undan Grænuhlíðinni. Loks náðum við svo viku þar til gerði brælu á ný svo við keyrðum suður og lönduðum. Við þræluðumst svo norður aftur og náðum einni viku þar til brældi aftur. Restina kláruðum við svo fyrir sunnan í Skerjadýpinu.”
Kristján segir að þessi brælukafli núna hafi verið óvenjulangur og í síðustu viku var staðan þannig að fuglinn fljúgandi hættir sér ekki út á miðin. Hann segir mörg ár síðan svo þrálát ótíð hafi verið fyrir vestan en það sem hafi breyst undanfarin ár séu þessar miklu öfgar í veðri. Lægðirnar komi mun hraðar yfir og séu miklu kröftugri.
Óvenjumikil ufsagengd
„Það sem einkenndi þennan túr að öðru leyti var óvenjumikil ufsagegnd. Þetta teygðist alveg frá Víkurál og út að Hala og vorum alltaf í stórum og fallegum ufsa. Þungamiðjan í ufsaveiðinni var vestast í kantinum við Víkurál. Það var líka óvenjulegt í hve langan tíma við vorum að fá ufsa. Þarna var almennt góð ufsaveiði en engin grís bara hjá mér,” segir Kristján.
Af þessum rúmu 800 tonnum sem fengust var ufsinn um 310 tonn. Örfiriseyin gerði líka góðan túr og var með um 900 tonn upp úr sjó og þar af mikið af ufsa. Kristján segir menn brosa allan hringinn þegar svo mikið veiðist af ufsa því hann hafi lengi verið dyntóttur og kvótinn átt það til að brenna inni.
„Eitt sem við skiljum samt ekki alveg er hvers vegna ufsakvótinn var aukinn en karfa- og ýsukvótinn minnkaður. Það er heilmikil vinna bara að komast hjá því að fá þessar tegundir sem eru í miklu magni á miðunum. Í restina fengum rúm 130 tonn af djúpkarfa í Skerjadýpinu á síðustu fjórum dögum úthaldsins. Versta við það er hve lítið fæst fyrir karfann. Karfinn er eiginlega eini nytjafiskurinn okkar sem er erfiður í sölu og ef einhvers staðar á sér stað birgðasöfnun þá er það í karfa,” segir Kristján.