„Það eru sterkar vísbendingar um að slysum hjá atvinnusjómönnum hafi fækkað. Það varð ekkert banaslys á síðasta ári,“ segir Jón Pétursson, rannsóknarstjóri siglingasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa.
Almennt segir Jón þróuninavera jákvæða varðandi öryggi í siglingum. „Útgerðirnar eru farnar að taka mjög fast á öryggismálum áhafna sinna ásamt því að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru með virkan öryggishóp þannig að það er mjög margt í gangi til þess að draga úr slysum. Það eru mjög sterkar vísbendingar um að það sé að skila sér vel,“ segir Jón.
Frumkvæði sjómanna
Að sögn Jóns eru það sjómennirnir sjálfir sem orðnir eru frumkvöðlar í því að leysa ákveðin öryggisatriði. „Þeir eru farnir að vera miklu meira vakandi fyrir þessum málum og taka þau mjög alvarlega. Auk þess er alltaf að koma betri búnaður. Þannig að það er margt sem hjálpast að við að draga úr slysum til sjós.“
Jón segir að best sé þegar sjómenn og útgerðir vinni saman að lausnum. „Það er betra heldur en það sé verið að troða einhverju regluverki á þá ofan frá. Þeir hafa náttúrlega mestan hag af því að hafa hlutina í lagi og þeir eru fullir af vilja til þess,“ undirstrikar hann.
Slapp með naumindum
Þótt tölfræði siglingasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa fyrir árið í fyrra hafi ekki enn verið gefin út segir Jón það liggja fyrir að mun færri mál hafi verið tekin til rannsóknar en áður. Þau séu sum hins vegar nokkuð stór. Það eigi til dæmis við um atvikið þegar erlenda flutningaskipið Longdawn og strandveiðibáturinn Hadda rákust saman um sex mílum undan Garðskagavita um miðjan maí. Einnig óhappið sem varð þegar togarinn Huginn VE fór með akkerið í vatnsleiðslu til Eyja og laskaði hana illa. Bæði málin séu enn til meðferðar hjá nefndinni.
Spurður um hinn óvenjulega árekstur í maí þar sem skipstjórinn á strandveiðibátnum slapp með algerum naumindum lifandi kveðst Jón ekki geta tjáð sig um þann atburð. Það sé vegna þess að rannsóknarnefndin eigi enn eftir að skila af sér skýrslu um málið. Hennar sé að vænta innan tveggja mánaða.
„En ég get sagt að það varð árekstur þar sem lá við stórslysi,“ segir Jón. Almennt segir hann slíka slíka árekstra vera mjög fátíða. „Ef allt er eðlilegt á ekki að þurfa að sigla saman.“
Vilja útrýma slysum á RIB-bátum
Nokkuð hefur verið um óhöpp á svokölluðum RIB-bátum en Jón segir að allt árið í fyrra hafi aðeins borist ein tilkynning um óhapp á slíkum báti.
„Ég veit að það er vilji hjá útgerðum þessara báta að laga hluti sem hafa farið afvega. Það er sérstök deild núna innan Samtaka ferðaþjónustunnar sem skoðar þessi mál. Þeir vilja bæta sitt verklag þannig að það sé hægt að fækka þessum slysum og helst útrýma þeim,“ segir Jón.
Í mars í fyrra kom út skýrslan Norwegian Prima um niðurstöður athugunar sem rannsóknarnefndin leiddi í samstarfi við rannsóknarstofnun á Bahamaeyjum þar sem viðfangsefnið var áskoranir í tengslum við siglingar skemmtiferðaskipa. Jón segir að kjölfar skýrslunnar séu hafnir hér heima farnar að grípa til mikilla aðgerða í þessum efnum.
Hafnsögumenn utan í þjálfun
„Við höfum tekið eftir að það eru sífellt fleiri hafnir farnar að senda menn út til þjálfunar og það eru fleiri hafnir á leiðinni að gera hið sama. Það hefur verið mjög ánægjuleg þróun og gott samstarf, sérstaklega milli Faxaflóahafna og RNSA. Og við höfum vitneskju um það að sífellt fleiri hafnir ætla að taka sér til fyrirmyndar það sem Faxaflóahafnir hafa gert með því að auka þjálfun hafnsögumanna og skipstjóra hafnsögubáta,“ segir Jón.
Fyrst og fremst segir Jón að menn séu sendir í sérstaka þjálfun til Hamborgar í Þýskalandi. „Þar eru hafnirnar teiknaðar upp og settar inn í samlíki, sem er sambærilegt flughermi, og þeir æfðir í meðförum skemmtiferðaskipa og í hafnsögu. Þetta er alveg gríðarleg framför,“ segir hann. Þannig sé það á flestum sviðum.
„Heilt yfir virðast sjófarendur vera sífellt að vakna meira og meira fyrir öryggi og það eru allir að reyna að bæta sig,“ segir Jón Pétursson.