Steinbíturinn hefur verið að leita í auknum mæli norðar með Vestfjörðum á undanförnum árum. Veiðislóðin úti af Hælavíkurbjargi og Hornbjargi hefur gjörbreyst síðustu 4-5 ár og fást þar 200-300 kg á bala af steinbít 1-12 sjómílur frá landi. Þetta kom fram í erindi sem Guðmundur Einarsson, skipstjóri flutti á fundi samráðshóps sjómanna, útvegsmanna og sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar um steinbítsrannsóknir nýlega.
Fram kom í erindinu að til ársins 2005 hafi steinbítur veiðst mest á línu á svæðinu frá Látrabjargi að Kópsnesi. Frá árinu 2005 gaf það svæði verulega eftir, en veiði á steinbít á Skálvíkursvæðinu varð mun meiri en áður. Á Skálvíkursvæðið kemur steinbítur núna mánuði fyrr en áður, að sögn Guðmundar, eða í lok janúar í stað lok febrúar. Einnig kom fram að steinbítur hefði veiðst í ár í Ísafjarðadjúpi eða við Grænuhlíð og Álftarfjörð, en ekki hafi fyrr heyrst af steinbítsveiði á þessum stöðum. Nefnt var hækkandi hitastig sjávar sem hugsanleg skýring á þessum breytingum.
Sjá nánar um fundinn á vef Hafrannsóknastofnunar.