Marhólmar í Vestmannaeyjum er eitt stærsta fyrirtæki í heiminum í framleiðslu á masago. Fyrirtækið var stofnað árið 2012 og er nú alfarið í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Sverrir Örn Sverrisson framkvæmdastjóri og Ragnhildur Þorbjörg Svansdóttir framleiðslustjóri stýra fyrirtækinu sem stofnað var árið 2012 af Halldóri Þórarinssyni og Hilmari Ásgeirssyni. Þar starfa nú 15 manns við sérhæfða vinnslu á loðnuhrognum í masago. Auk þess er þar talsvert unnið af þorskhrognum.

100% í eigu Vinnslustöðvarinnar

Halldór og Hilmar áttu félagið einir en svo komst það í 75% eignarhlut Vinnslustöðvarinnar og loks að öllu leyti. Framleiðsla á masago hófst 18. mars 2013. Samhliða því var vinnsla á hrognum þorsks, ufsa og flugfisks ásamt því sem talsverð vinnsla var áður fyrr á síld í neytendapakkningar. Stærsti markaðurinn fyrir síldina var Finnland. Ákveðið var árið 2017 að hætta þeirri framleiðslu og flytja hráefnið þess í stað til vinnslu í Eistlandi. Þar var þessi vara framleidd áfram með mun styttri flutningum inn á Finnlandsmarkað á lokaafurðinni. Ekki er unnin síld lengur í neytendapakkningar hjá Marhólmum né fyrir félagið í Eistlandi.

„Framleiðum heilan helling“

Masago eru lituð loðnuhrogn sem notuð eru til að bragðbæta og skreyta sushi rétti. Masago hefur verið sérhæfing Marhólma frá upphafi og fyrirtækið er, sem fyrr segir einn stærsti framleiðandi þessarar vöru í heiminum. Vinnslan fær hrognin fryst og þýðir þau upp. Þau eru síðan blönduð með lit, sykri, salti og sojasósu í ákveðnum hlutföllum eftir japanskri forskrift. Sverrir Örn segir að fleiri stórir framleiðendur séu innanlands, þar á meðal Vignir G. Jónsson ehf. á Akranesi og Royal Iceland í Njarðvík. Hann segir samkeppni ríkja á þessum markaði en hann vildi ekki skjóta á hver heimsframleiðslan væri á ári. Þegar hann er spurður hver ársframleiðsla Marhólma á masago sé segir hann: „Við framleiðum heilan helling,“ og vill halda að sér spilunum gagnvart samkeppnisaðilum.

Starfsmenn Marhólma í góðu stuði. FF MYND/GUGU
Starfsmenn Marhólma í góðu stuði. FF MYND/GUGU

Sesamfræ í stað masago

Undanfarin ár hefur sjávarútvegurinn stöðugt verið að færa sig út í meiri fullvinnslu á afurðum og Marhólmar eru skýrt dæmi um það. Það er eftirspurn eftir masago og eftirspurnin jókst stöðugt lengi vel. Svo datt hún skarpt niður þegar verð á loðnuhrognum fór upp úr öllu valdi í kjölfar dræmrar loðnuveiði. Verð fór að hækka á árinu 2022 og hefur síðan farið nánast stjórnlaust upp. Þetta leiddi til þess að það komu aðrar vörur inn á masago markaðinn í stað loðnuhrogna, eins og sesamfræ og hrísgrjóna mulningur. „Útgerðir á Íslandi og masagoframleiðendur geta sjálfum sér um kennt hvernig fór með alltof brattri verðlagningu á loðnuhrognum,“ segir Sverrir.

Loðnubrestir og hækkandi verð

Bandaríkin eru stærsti markaðurinn fyrir masago og varan verður eiginlega til fyrir þann markað og svokallað Californian roll sem er vefja sem inniheldur gjarnan krabbakjötslíki, avocado og agúrkur ásamt masago utan á henni. Einnig er masago gjarnan notað í pokeskálar til skrauts. Það er ekki síst asíska samfélagið í Bandaríkjunum sem sækir í þessa rétti en þó alls ekki síður Bandaríkjamenn og Evrópubúar.

Appelsínugult og wasabi masago. Mynd/Marhólmar
Appelsínugult og wasabi masago. Mynd/Marhólmar

Loðnubrestur tvö ár í röð kemur sér óhjákvæmilega illa fyrir starfsemi fyrirtækis eins og Marhólma. Sverrir Örn segir að með útsjónarsemi hafi náðst að verða sér úti um nægilegt magn af loðnuhrognum til þess að geta framleitt masago fyrir núverandi viðskiptavini eitthvað fram í tímann. Þokkalegasta loðnuvertíð var 2022/2023 þegar veiddust á þriðja hundrað þúsund tonn. Eftir þá vertíð mynduðust birgðir í landinu og birgðastaðan jókst enn frekar með minnkandi eftirspurn í kjölfar mikilla verðhækkana. „Framan af 2023 var mikið frost á masago markaðnum vegna þessa,“ segir Sverrir Örn. Enn eru til loðnuhrogn frá þessari vertíð á Íslandi en einnig eru birgðir í Austur-Evrópu og Asíu af loðnuhrognum sem voru keypt frá Íslandi á þessum tíma. Hráefnisskortur háir því ekki beinlínis masagoframleiðendum heldur hefur eftirspurn dregist saman í kjölfar verðhækkana á loðnuhrognum.

Hækkunarferli að hefjast á ný

„Við erum smátt og smátt að vinna til baka þau föstu viðskipti sem við höfðum áður við stóra heildsala sem síðan selja masago áfram til veitingastaða. En nú sýnist okkur sem að það sé aftur að hefjast hækkunarferli á loðnuhrognum í ljósi þess að ekkert varð úr tveimur síðustu loðnuvertíðum. Réttast væri að skamma allar útgerðir á landinu fyrir þessar hækkanir en það sem Vinnslustöðin hefur kannski fram yfir aðrar útgerðir er mikil nánd við masagomarkaðinn í gegnum Marhólma. Margar aðrar útgerðir selja sín hrogn beint út og eru ekki í jafn nánu sambandi við markaðinn.“

Svanur Páll Ísfeld Vilhjálmsson, Ragnhildur Þorbjörg framleiðslustjóri og Sverrir Örn framkvæmdastjóri. FF MYND/GUGU
Svanur Páll Ísfeld Vilhjálmsson, Ragnhildur Þorbjörg framleiðslustjóri og Sverrir Örn framkvæmdastjóri. FF MYND/GUGU

Marhólmar selja sitt masago í 450 gramma til 2ja kg pakkningum. Þessi fullvinnsla á loðnuhrognunum í masago skilur eftir virðisauka og aukið atvinnustig í landinu sem annars færi til Austur-Evrópu eða Asíu.

Kvóti til að halda mörkuðum lifandi

Sverrir Örn kveðst í ljósi þess sem áður var sagt ekkert sérstaklega bjartsýnn á horfurnar taki hann mið af því sem hafi verið að gerast á masagomarkaðnum og líka því hvernig þróunin hefur verið í loðnuveiðum við landið undanfarið. Meðan staðan sé þessi telji hann nauðsynlegt að gefinn verði út rannsóknakvóti í loðnu sem dugi til þess að halda mörkuðum lifandi. Þá dugi ekki til sýnishornakvóti eins og þau rúmu 8 þúsund tonn sem mátti veiða á síðustu vertíð. Að minnsta kosti þyrfti að koma til 30-40 þúsund tonna veiði til þess að halda mörkuðum lifandi þar til loksins loðnan fer að ganga aftur til Íslands með eðlilegum hætti og hrygna þar. „Þegar og ef það kemur 300 þúsund tonna vertíð þá þurfa að vera til markaðir til að taka við afurðunum.“

Óttast boðaðar breytingar á veiðigjöldum

Marhólmar vinna einnig þorskhrogn fyrir Evrópumarkað og hefur verið mikið umfangs í þeirri vinnslu að undanförnu á hávertíð sem nú er að ljúka. Vinnslan hefur komið sér vel þá daga sem Marhólmar eru ekki að vinna masago. Sverrir segir slag um bolfiskhrogn hér innanlands sem hafi leitt til umtalsverðrar verðhækkunar á hráefninu. Að hluta til megi einnig rekja þá þróun til minna framboðs annars staðar frá, t.a.m. með minni kvóta í Barentshafi. Þar var 20% niðurskurður í þorskveiðum og annar eins niðurskurður boðaður fyrir næsta ár.

Reykt þorskhrogn frá Marhólmum. Mynd/Marhólmar
Reykt þorskhrogn frá Marhólmum. Mynd/Marhólmar

„Við höfum sykursaltað þorskhrogn, reykt þau og heilfryst. Við erum ekki að framleiða lokavöru úr hrognunum enn þá. Mikið af því sem íslenskar vinnslur framleiða er t.d. notað af evrópskum framleiðendum til að gera kavíar í túbum. Við höfum reyndar mest verið að selja bolfiskhrogn í magnpakkningum til framleiðenda sem gera svokallaðan „kavíarhummus“ sem kallast taramasalata sem er mjög þekkt í Suður-Evrópu og hefur fylgt grískri matarhefð lengi. Portúgalar og Spánverjar hafa einnig notað hrogn í gerð taramasalata en líka til að útbúa barsnakk eftir öðrum leiðum.“ Sverrir Örn segir að nái boðaðar breytingar á veiðigjöldum á uppsjávarfiski fram að ganga muni það hafa mjög slæm áhrif á markaðinn. Það muni leiða til verðhækkana til neytenda og takmörk séu fyrir því að hve miklu leyti sé hægt að hleypa auknum kostnaði inn í verðið þar til neytandinn snýr sér að annarri vöru. „Það er nógu vandasamt verk að útskýra fyrir erlendum neytendum 5% launahækkanir á Íslandi og 7% verðbólgu. En að leggja það líka á þá að skilja veiðigjöldin og tvöföldun þeirra er kannski til of mikils mælst,“ segir Sverrir Örn um þann vanda sem blasir við framleiðendum. Hann segir að tvöföldun veiðigjalda muni hafa gríðarleg áhrif á sjávarútvegsfyrirtæki og önnur fyrirtæki tengd sjávarútvegi í Vestmannaeyjum.