Indriði Kristins BA, nýr beitningavélabátur Þórsbergs ehf. á Tálknafirði, var að koma inn til sinnar þriðju löndunar í byrjun vikunnar þegar Fiskifréttir náðu tali af Guðjóni Indriðasyni útgerðarmanni. Nýi báturinn er 12,5 metrar á lengd, 6,5 á breidd og mælist 30 brúttótonn. Hann er smíðaður hjá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði og leysir af hólmi eldri bát með sama nafni.

Báturinn er yfirbyggður Cleopatra 40BB hannaður í samstarfi við Ráðgarð ehf . Rými er fyrir allt að 54 460 lítra kör í lest. Millidekk er lokað með aðgreindu dráttarrými. Í bátnum er upphituð stakkageymsla fyrir átta manns. Í bátnum er stór borðsalur, salerni og sturta, þvottavél og þurrkari. Svefnpláss er fyrir átta í lúkar í 4 aðskildum klefum. Fullbúið eldhús er um borð með öllum nauðsynlegum búnaði eins og t.d. eldavél, bakarofni, örbylgjuofn og ísskáp. Báturinn er útbúinn til lengri útiveru ef þarf og aðbúnaður um borð fyrir áhöfn í takt við það.

Fer vel af stað

Guðjón segir þetta fara vel af stað á nýja bátnum og þeir sem rói honum beri honum góða sögu. Þar vísar Guðjón til sona sinna, skipstjóranna Indriða og Magnúsar.

„Þetta er nú ekki fyrsti báturinn sem ég fæ frá Trefjum. Þeir eru orðnir nokkrir og þessi líklega sá ellefti eða tólfti í röðinni. En það er yfir mörg ár. Ég lét smíða fyrir mig bát í Bátalóni 1972 og ég hef ekki unnið við annað síðan. Ég fór sjálfur í land fyrir mörgum árum, líklega í kringum 1986 og stýri þessu bara úr landi núna,“ segir Guðjón.

Guðjón Indriðason útgerðarmaður.
Guðjón Indriðason útgerðarmaður.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hann sagði að mesta pælingin í kringum nýja bátinn hafi verið að lækka kolefnisfótsporið. Hann er með minni vél en fyrri bátur og stærri skrúfu. Þessu fylgi minni olíueyðsla og minni útblástur. Í samanburði við eldri bát fari eyðslan niður um 15-20% en á sama tíma er heldur meiri gangur í þessum bát. Guðjón segir að keypt hafi verið olía á síðasta kvótaári fyrir nálægt um 20 milljónir króna. Olíusparnaðurinn á ársgrundvelli geti því numið 3-4 milljónum króna.

Þetta hafi verið stóra málið en að auki er öll aðstaða um borð mun betri en í eldri bát, bæði fyrir áhöfn og einnig öll vinnuaðstaða. Tvær áhafnir eru á Indriða Kristins, alls átta manns. Úthöldin eru tíu dagar í senn.

Komnir upp í hámark

„Við vorum með nægan kvóta fyrir allt árið en niðurskurðinn sem var framkvæmdur núna og síðast skekkir myndina talsvert. Hann tekur af okkur einn og hálfan mánuð. Við vorum með nægan kvóta fram að því. Við erum ekki búnir að finna lausn á því en erum að skoða málið. Við megum ekki vera með meiri kvóta út af þakinu í krókaaflamarkskerfinu sem er 4%. En í stóra kerfinu geta fyrirtæki verið með allt að 12%“

Guðjón segir veiðar hafa gengið ágætlega undanfarið. Það virðist vera nóg af fisk í sjónum. „Þeir lönduðu í tvígang í Ólafsvík og núna hérna fyrir vestan. Það fer bara eftir því hvernig veiðin er hvar þeir verða. Þeir rúnta bara í kringum landið og hafa verið mikið fyrir austan á haustin og eru svo komnir hingað vestur upp úr desember. Um miðjan mars, þegar steinbíturinn fer að þvælast fyrir, hafa þeir farið suður. Þetta er ekki smíðað til að vera við bryggju.“

Þórsberg rak einnig saltfiskvinnslu og aðra vinnslu fram til ársins 2015. Nú fer aflinn að hluta til á markað og einnig er Þórsberg í föstum viðskiptum við Kamb í Hafnarfirði. Guðjón segir fiskverð í hæstu hæðum og hann muni ekki eftir öðru eins.

„En nú er hann að koma að bryggju og ég má ekki vera að þessu,“ kveður Guðjón, „hann er með einhver 12-14 tonn, mest þorski.“

TÆKNILÝSING:

Vélbúnaður frá Ásafl ehf

Aðalvél. Doosan 4V158TIH (15 lítra)

Gír: ZF W350-1

Skrúfubúnaður

Skrúfuhnífur

Helac snúningsliður

Dælubúnaður

Stýrisbúnaður

Stýrismíði Héðinn

Stýrisbúnaður Trefjar

Öryggisbúnaður

Viking björgunarbúnaður

Sjálfvirkur sleppibúnaður: KN vélsmiðja

Siglingatæki:

Frá Sónar ehf:

ComNav P4 Color sjálfstýring m. hliðarskrúfu interface

TS-203 FFU útistýri fyrir Compilot

Comnav Stýrisvísir

JRC JFC-180 BB dýptarm, 3KW, 4 freq

Raymarine CAM220 IP myndav, eyeball, 93°

JRC JHS-183 AIS tæki með loftneti

JRC JLR-21 GPS kompás, m skjá, 3ja loftn

SAILOR 6215 VHF DSC talstöð

SAILOR 6210 VHF talstöð

AG Neovo QX-43 43" 4K, Quad skjár

JRC JLN652 Doppler Current Meter, 240kHz

SAILOR 6150 Mini-C, með neyðarhnapp

Thrane LT-3100S Iridium GMDSS System

JRC NCR-333 Navtex Móttakari m. activu loftneti

Phontech CIS 3100 Master Station 5 rása

Phontech 9001 útstöð m. mic + hátalara

Phontech 9052 vatnsh útstöð m mic + hát.

GILL WindObserver 65 vindhr.nemi m. hita

Tranberg TEF2650 LED51 leitarkastari

Tranberg TEF2612 Control Panel f TEF2650

Raymarine Quantum 2 Q24D radar m 10m kap

Raymarine AXIOM 12 Pro-RVX, 1KW + 3D

Maxsea Timezero Professional V4

Pacific MS-3C Skjáveggscontrol 20x16

Olex 3D forrit og tölva

3G/4G sími með innbyggðum router

3G/4G Data Router, RUT240

Siemens PRO þráðlaus sími m. bluetooth

Koden KGP-915 GPS/Glonass og display

Sónar ehf hafði yfirumsjón með tækjauppsetningu um borð

Veiði og dekkútbúnaður

Línuspil, uppstokkari, beitningavél og rekkar: Mustad

Blóðgunar og kælisnigill: Lavango

Móttöku og meðaflakör: Stálorka

Beitukar: Stálorka

Vökvakerfi: Danfoss

Beiturekkar: Stálorka

Ísvél og forkælir: Kæling ehf

Rekkverk og önnur járnsmíði: Stálorka

Löndunarkrani: TMP700L frá Ásafli

Bóg og skutskrúfa er af gerðinni Quick.