Frystitogari Ramma hf. á Siglufirði, Sólberg ÓF, hélt til veiða í Barentshafi í síðustu viku og eftir kraftmikla byrjun hefur heldur dregið úr veiðinni. Sólbergið hefur oft gert góða túra og sérstaklega gekk vel í mars 2019 þegar Sigþór Kjartansson og áhöfn hans komu með um 1.800 tonn eftir 37 daga veiðiferð úti fyrir Norður-Noregi.

Leyfilegur heildarafli íslenskra skipa innan efnahagslögsögu Noregs á þessu ári eru rúm 4.800 tonn. Sólberg er eina íslenska skipið, enn sem komið er, sem hefur hafið veiðar í Barentshafinu. Sigþór skipstjóri segir að talsverður fjöldi norskra og rússneskra skipa séu á svæðinu. Þar var einnig Kirkella, frystitogari Ice Fresh Seafood, dótturfélags Samherja.

„Fyrsti sólarhringurinn var ágætur en svo fór að fjölga skipum á þeim bletti og þá fór að verða erfiðara að eiga við þetta,“ segir Sigþór. Þeir voru þá rétt fyrir utan tólf sjómílur norður af Honningsvåg en nær landi má ekki veiða. Fyrir augu þeirra í brúnni ber línubáta með íslenskum nöfnum enda koma Íslendingar við sögu í útgerð á þessum slóðum.

„Við leituðum svo aðeins austar til að komast í betra veður, austur fyrir 27° í lengdinni, en þar var of mikið af ufsa með í aflanum svo við urðum frá að hverfa.“

Flótti undan meðafla

Samkvæmt reglugerð um veiðarnar má meðafli að hámarki vera 30% í veiðiferðinni allri og sé meðafli 50% í holi er litið þannig á að þorskinn sé orðinn meðafli. Það stefndi allt í að svo yrði og þess vegna var haldið á ný vestar í Barentshafið. Veiðarnar markast oft af því að flýja svæði þar sem meðafli er of mikill. Í fyrra fór Sólbergið til að mynda allt norður undir Bjarnarey til þess að fá hreinni þorsk.

Sigþór Kjartansson skipstjóri. MYND/Þorgeir Baldursson.
Sigþór Kjartansson skipstjóri. MYND/Þorgeir Baldursson.

„Það eru mörg skip hérna í kringum okkur núna en þau eru dálítið dreifð. Ég sá að Rússarnir fóru mikið austur fyrir og einhverjir sýndist mér fara alveg inn í rússneska lögsögu. Það er skárra veðurútlit þar. En það hafa reyndar oft verið fleiri skip hérna en það hefur þá helgast af því að það hefur verið meiri veiði.“

Flakavinnsla, mjöl og lýsi

En það er ekki tjaldað til einnar nætur heldur verður Sólbergið við veiðar þarna fram til 6. mars. Sú heimkoma er ákveðin vegna þess að þá verður haldin námskeið á vegum Slysavarnaskóla sjómanna um borð í skipinu á Siglufirði.

Stefnt er að því að veiða allan kvótann, nálægt 1.600 tonn, í þessari einu veiðiferð. Sigþór segir að sá þorskur sem hafi fengist sé skárri en oft áður á þessum slóðum á þessum árstíma. Fiskurinn sé oft blandaðri að stærð. Svo hafi menn oft fært sig yfir til Lófóten þegar nálgast fer mars og apríl þar sem aðallega eru stórfiskar.

Sem stendur fer aflinn í hefðbundna flakavinnslu um borð auk þess sem framleitt er mjöl og lýsi úr aukaafurðunum. Áður var talsvert unnið í bita líka en með breyttum markaðsaðstæðum í kjölfar heimsplágunnar hefur dregið úr því.