„Grunnhugmyndin er að þróa aðferðir sem nýta náttúrlega leiðir hafsins til þess að styðja við heilsu sjávar,“ segir Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi.

„Í sjónum eru nú þegar fullt af ferlum sem binda nitur og önnur næringarefni eða binda kolefni varanlega,“ segir Kristinn og nefnir sem dæmi að alla tíð hafi fallið „gríðarlega mikið magn af timbri í sjóinn. Það sekkur á hafsbotn og bindur þar með kolefnið sem er bundið í timbrinu sjálfu varanlega.“

Þriðja leiðin

Marty Odlin, stofnandi og forstjóri Running Tide, sagði á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fyrir stuttu sjálfur hafi hann alist upp í útgerðar- og sjómannafjölskyldu í Maine í Bandaríkjunum. Þar hafi sést greinileg merki um hnignun lífríkisins í sjónum. Skelfiskur sé orðinn illa haldinn, makríllinn horfinn á braut og þegar fylgst er með ástandi sjávar sést að þangað inn á flóana hafi borist stundum óvenju hlýr sjór og stundum óvenju súr sjór, með alvarlegum afleiðingum ekki síst fyrir skelfiskinn.

Hingað til hafi menn veitt úr sjónum og um leið reynt að vernda lífríkið, en til sé þriðja leiðin sem felst í því að grípa inn í og styrkja auðlegð hafsins.

„Sjórinn bindur mjög mikið magn af kolefni og gerir það meðal annars með því að plöntusvif í efstu lögum sjávar ljóstillífar, býr til lífmassa og bindur þar með kolefnið úr koltvísýring," segir Kristinn. "Síðan deyr það plöntusvif. Hluti af því sekkur niður á hafsbotn og er þá í raun að taka kolefnið úr umferð og geyma varanlega dýpst á botni sjávar. Okkar aðferðir snúast um að magna þessa ferla sem eru þegar til staðar í sjónum og auka örlítið kolefnisbindinguna. Hafið er svo stórt og mikið að örlítil aukning þar getur haft mikilvæg áhrif.“

Fært á milli kerfa

Markmið aðferðar Running Tide sé að færa kolefni aftur til baka niður í hægu kolefnishringrásina svonefndu úr hröðu hringrásinni. Sú hraða á sér stað í andrúmsloftinu, lífríki jarðar og efri lögum hafsins, en sú hæga á sér stað í jarðlögum, djúpsjó og öðru þar sem kolefni safnast fyrir með tímanum.

„Varanleg kolefnisbinding snýst um að færa efni á milli þessara tveggja staða. Það sem við gerum er í raun að herma aðferðir sjávar við að binda kolefni varanlega. Við erum þá að taka lífmassa af landi, í þessu tilfelli timburafganga sem eru ekki nýttir í einhver verkefni eða vörur. Við blöndum því saman við kalkstein og notum það síðan til lengri tíma sem undirlag undir þörungavöxt. Við dreifum efninu úti á rúmsjó þar sem það flýtur í einhvern tíma, kalksteinninn á að leysast upp og hefur þá basandi áhrif. Þörungurinn vex og bindur kolefni með ljóstillífun. Svo dregur þetta í sig vatn og sekkur að lokum sem bindur þá á hafsbotni bæði kolefnið sem er bundið í timbrinu og í framhaldinu þörungunum þegar þeir eru komnir líka.“

Þróunarstarf á Íslandi

Running Tide er með þrjár starfsstöðvar á Íslandi. Aðalskrifstofan er í Lækjargötu 2 í Reykjavík, hornhúsinu sem brann að hluta vorið 2007 og var síðan endurbyggt. Á Akranesi hafa þau komið sér upp aðstöðu hjá þróunarfélaginu Breið, í gamla HB-húsinu. Þar eru þau með þörungarækt á 500-600 fermetra svæði þar sem áður var fiskvinnsla. Þar er nú verið að rækta bæði beltisþara og maríusvuntu, en fleiri tegundir verða væntanlega prófaðar síðar. Og á Grundartanga er tekið á móti timbri til vinnslu, sem felst í því að gera úr því lítil flothylki sem síðan eru flutt út á haf og sökkt þar.

Running Tide er alþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi. Hér á landi eru tólf manns í fullri vinnu hjá fyrirtækinu og um 25 verktakar að auki. Í Bandaríkjunum eru á annað hundrað starfsmenn í rannsóknar- og tækniþróunarvinnu hjá fyrirtækinu.

„Ísland er fyrsti staðurinn þar sem við erum að gera þetta og er einskonar rannsóknar- og þróunarmiðstöð fyrir félagið. Við stefnum á fleiri staði og erum komin mislangt á veg, þokkalega langt á nokkrum stöðum.“

Dráttarbáturinn BB Server dregur pramma frá Grundartanga með unnið viðarkurl sem sökkt var úti á rúmsjó suður af landinu. FF MYND/Guðmundur St. Valdimarsson
Dráttarbáturinn BB Server dregur pramma frá Grundartanga með unnið viðarkurl sem sökkt var úti á rúmsjó suður af landinu. FF MYND/Guðmundur St. Valdimarsson
© Guðmundur St. Valdimarsson (GstV)

Fyrir nokkrum vikum var siglt með fyrstu útgáfuna af flothylkjunum frá Grundartanga út á rúmsjó. Þar voru þau sett niður ásamt mælitækjum, vatnssýni tekin og fleira og síðan verður fylgst með því hvað gerist.

Sambærilegt við Carbfix

Kristinn segir þetta verkefni að nokkru sambærilegt við Carbfix, sem dælir koltvísýringi sem er leystur upp í vatni niður í jörðina þar sem hann verður að steini, og líkir þar eftir náttúrulegu ferli við að binda kolefni. Núna sé Running Tide á svipuðum stað og Carbfix var þegar búið var „að pæla mikið og gera prófanir, en svo þurfti að byrja að dæla til að gá hvort það virki. Markmiðið núna er að ná að sýna fram á að þetta virki. Og byggja upp getuna til að gera þetta almennilega.“

Stór partur af verkefninu er síðan að mæla og greina áhrifin af því sem ætlunin er að gera. Til þess hefur félagið þróað og framleitt mælitæki, hugbúnað og spálíkön til að mæla og meta ástand sjávar fyrir og eftir tilraunir.

„Ef við ætlum til dæmis að nota skelfisk til að binda nitur eða vinna meira í umhverfismarkmiðum þá þurfum við að geta sýnt fram á að það skelfiskurinn sem komið er fyrir hafi áhrif á niturmagn. Okkar hugmynd var sem sagt að vinna með tvennt, annars vegar að koma með nýja tækniþróun að því hvernig áhrif eru mæld, greind og áætluð, og hins vegar að byggja upp getuna til jákvæðra mótvægisaðgerða.“

Markaður að fæðast

En hvernig skyldi þetta verkefni vera fjármagnað? Kristinn segir styrki koma við sögu, en einnig fjárfesta. Markaðurinn með kolefnisbindingu sé mjög áhugaverður, ekki síst vegna þess að hann er varla orðinn til ennþá. Til staðar sé markaður með kolefniseiningar, „en það er ákveðinn grunnmunur á því að borga einhverjum fyrir að byggja ekki kolaver, sem getur svo farið og byggt kolaver einhvern tímann seinna, og svo aðgerðinni að færa kolefni milli þessara kerfa.“

Running Tide er byrjað að rækta þörunga í gamla HB-húsinu á Akranesi. Aðsend mynd
Running Tide er byrjað að rækta þörunga í gamla HB-húsinu á Akranesi. Aðsend mynd
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Running Tide er nú þegar komið með kaupendur, en það eru ekki síst bandarísk stórfyrirtæki á borð við Microsoft og Stripe. Bæði fyrirtækin hafi á sínum snærum vísindafólk og sérfræðinga í kolefnisbindingu sem rýni þær aðferðir sem nýttar eru áður en þau kaupa kolefnisbindingu. Þannig gangi þær aðferðir sem njóta brautargengis í gegnum mikið tæknilegt og vísindalegt rýniferli áður en kaup eiga sér stað.

„Markaðurinn núna er í raun hannaður þannig að fyrirtækin kaupa þessa bindingu fyrirfram til langs tíma til þess að ýta undir að þróunarstarf fari í gang.“

Nærtækt dæmi

Besta og nærtækasta dæmið um sambærilega uppbyggingu sé það þróunarstarf sem hófst af miklum krafti hjá lyfjafyrirtækjum þegar Covid-faraldurinn var að komast á skrið.

„Fullt af ríkisstjórnum í heiminum keyptu fyrir fram mikið af Covid-bóluefnum, sem urðu svo til á endanum. En það þurfti að kaupa þau fyrir fram til þess að lyfjafyrirtækin færu af stað að byggja verksmiðjurnar og ráða starfsfólkið, fjárfesta og byrja að framleiða. Og komast síðan að því að sumt virkar og sumt ekki, og þá hættum við bara því,“ segir Kristinn.

„Varanleg kolefnisbinding stefnir í að verða einn stærsti iðnaður allra tíma, sem mögulega hleypur á þúsundum milljarða á næstu þrjátíu árum, og er sprottinn upp úr engu,“ sagði Odlin á ársfundi SFS. „Það snýst ekki bara um að verja það sem við höfum heldur er þetta leið til að skapa nýjar tekjulindir.“