„Ég lét taka það saman fyrir mig hjá Samgöngustofu um daginn hve marga daga ég hafi verið skráður til sjós. Niðurstaðan var dálítið sláandi því þetta eru samtals 11.140 dagar sem samsvarar 30 árum. Þess vegna finnst mér nóg komið núna og tímabært að ég snúi mér að einhverju öðru. Ég á tvö börn og þau eru mjög vel uppalin því ég kom ekki nálægt uppeldinu. Konan mín, Valdís Valgarðsdóttir sá alfarið um þau mál,“ segir Þorsteinn Eyjólfsson skipstjóri sem fór fyrst á sjóinn 1973 hefur verið í brúnni Rán HF, sem seinna varð Baldvin Njálsson GK, og núna undir lokin á splunkunýjum Baldvini Njálssyni GK sem kom nýsmíðaður frá Spáni fyrir rétt rúmu einu ári.

Gaflari af Guðs náð

Þótt Þorsteinn hafi ákveðið að hætta til sjós þýðir það engan veginn að hann ætli setjast í helgan stein. Enda maður á besta aldri. Fagnaði 65 ára afmæli sínu fyrir tveimur dögum. Gaflari af Guðs náð, fæddur á fæðingardeildinni á Sólvangi 20. desember 1957.

Afi Þorsteins og alnafni var togaraskipstjóri á fjölmörgum togurum og faðir hans, Eyjólfur Þorsteinsson var stýrimaður á fraktskipum og síðar verkstjóri í Faxaskála. Hann starfaði í fjölda mörg ár hjá Eimskipi. Sjálfur byrjaði Þorsteinn fjórtán ára að vinna hjá föður sínum í Faxaskála en hafði áður verið í sveit á sumrin í Þingnesi í Borgarfirði þar sem móðir hans fæddist og ólst upp. Þar er nú ættarsetur fjölskyldunnar og mikið sýslað með hesta.

15 ára á Maí HF

Þorsteinn man það upp á dag hvenær hann byrjaði til sjós. Það var 19. maí 1973 þegar hann réði sig 15 ára gamall sem háseta hjá Svavari Benediktssyni á síðutogaranum Maí frá Hafnarfirði. Hann var það sumar á sjó og tók svo jólatúr. Þetta var upplifun fyrir unglinn en auðvitað mikil vinna. En það var siglt með aflann og þannig komst hann til útlanda í fyrsta sinn. Það blundaði í honum strax að gera sjómennskuna að ævistarfi og snúa bara ekkert aftur í skólann. En mamma hans tók talaði strákinn til.

Guðsteinn GK smíðaður fyrir Samherja hf. í Grindavík 1974.
Guðsteinn GK smíðaður fyrir Samherja hf. í Grindavík 1974.

„Það voru allar gerðir af mönnum á Maí en þetta voru allt góðir menn. Sjómennskan var allt öðruvísi þá en hún er núna. Menn vissu til dæmis ekki hvað hugtakið öryggi þýddi. Það var líklega ekki fyrr en ég fór á Guðstein GK 1974 að við notuðum hjálma í fyrsta sinn. Þá var ég aftur með Svavari sem hafði tekið við Guðsteini GK nýjum. Það var gott að vera með Svavari til sjós. Hann er góður karl og við erum alltaf í góðu sambandi,“ segir Þorsteinn.

20 ár hjá Stálskipum

1977 lá leiðin í Stýrimannaskólann og þessi tvö ár sem námið tók var Þorsteinn á togaranum Apríl á sumrin. Að námi loknu gerðist hann 2. stýrimaður á Guðsteini GK með Svavari skipstjóra og í framhaldinu fylgdi hann Svavari svo yfir á Apríl HF. Þetta var um það leyti sem bæjarútgerðirnar voru að lognast út af og allt rekið á hvínandi kúpunni. Við tók eitt ár á Viðey sem var gert út af Hraðfrystistöðinni á Mýrargötu, svo á Maí með Gestni heitnum Sigurðssyni og þaðan yfir á Ými gamla en skipin voru gerð út af Stálskipum sem hjónin Guðrún Lárusdóttir og Ágúst heitinn Sigurðsson stofnuðu árið 1970. Hjá Stálskipum starfaði Þorsteinn næstu 20 árin.

„Það var góður skóli að vera hjá Stálskipum. Þar var vel með farið og fyrirtækið sérstaklega vel rekið.“

Þorsteinn var í 17 og hálft ár skipstjóri hjá Nesfiski. FF MYND/EYÞÓR
Þorsteinn var í 17 og hálft ár skipstjóri hjá Nesfiski. FF MYND/EYÞÓR
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

1988 lá leiðin yfir á nýja Ými. Þar bar það meðal annars til tíðinda að þegar skipið var við veiðar í Smugunni í september 1994 að eldur kom upp í vélarrúmi skipsins. Allt fór þó vél því sjálfvirkur slökkvibúnaður réði niðurlögum eldsins. Þorsteinn segir enga að síður andstyggilega tilfinningu þegar eldur verður laus í skipi úti á rúmsjó. Skipið varð rafmagnslaust eftir tvo tíma og öll neyðarlýsing farin. Norska strandgæslan lagðist upp að hlið skipsins til að bregðast við ef eldur blossaði upp aftur. Það tókst að koma vélum skipsins í gang á ný og var Ými í kjölfarið siglt heim.

Ránin verður að Baldvini Njálssyni

Þegar Ýmis var svo seldur og Þór keyptur færði Þorsteinn sig yfir á Ránina og var þar til 2005 þegar hún var seld til Nesfisks og fylgdi Þorsteinn með. Þar fékk hún nafnið Baldvin Njálsson og þar var Þorsteinn í sautján og hálft ár allt þar til hann hætti í nóvember síðastliðnum.

Baldvin Njálsson GK við heimkomuna fyrir rúmu ári. MYND/ELVAR JÓSEFSSON.
Baldvin Njálsson GK við heimkomuna fyrir rúmu ári. MYND/ELVAR JÓSEFSSON.

„Ránin var svakalega duglegt togskip og lygilegt hvað hægt var að fiska á hana. Eitt árið fiskuðum við 9.600 tonn, helmingurinn var ufsi.“

Fyrir ári rúmu ári hélt Þorsteinn ásamt föruneyti til Vigo á Spáni að sækja nýjan Baldvin Njálsson. Hann kveðst hafa verið fullur efasemda í eigin garð því skipið er svo tæknivætt. Þetta hafi þó komið fljótt enda með góða menn sér við hlið, Tryggva Eiríksson stýrimann og Arnar Óskarsson skipstjóra. Tryggvi hefur svo tekið við skipstjórninni á móti Arnari eftir að Þorsteinn fór í land.

„Þetta byrjaði þó brösuglega þegar við vorum að fara af stað á nýja skipinu. Það var alltaf snarvitlaust veður en svo kom þetta bara og mun fyrr en við áttum von á.“

Á heimsiglingunni frá Vigo var Bobba í Nesfiski með, Þorbjörg Bergsdóttir, sem var aðaleigandi og stjórnarformaður Nesfisks, á níræðisaldri. Þorsteinn segir að það hafi verið vitlaust veður beint í stefnið alla leiðina og hún hafi ekki fundið fyrir því. Siglingin tók fimm daga í snarvitlausu veðri.

Fiskað í tvö troll

„Síðustu túrana var þetta orðið allt í lagi en breytingin á milli skipa var miklu meiri en ég hélt að hún yrði. Til að mynda það að fiska í tvö troll er gríðarleg breyting. Ég hefði aldrei trúað því að það væri svona mikill munur á veiðinni. Það var ótrúlegt hvað mannskapurinn var fljótur að tileinka sér nýja tækni og veiðiaðferðir. Það er bara ekkert erfitt að kasta tveimur trollum þegar maður hefur lært að gera það. Í síðasta túr vorum við meira eða minna að veiða í tvö troll. Við lentum í ufsaveiði á Mýrargrunni og það sérstaka við þetta var að það var mokinnkoma í annað trollið en mun minna í hitt. Alls voru þetta um 28 tonn.“

Í síðasta túr Þorsteins fyrir austan land í nóvember höfðu verið austan- og suðaustanáttir og vitlaust veður í margar vikur án þess að það hefðu verið stórviðri. En þungur sjór allan tímann. Túrinn endaði með því að Þorsteini var flogið með þyrlu suður.

„Eftir sunnudagssteikina sat ég í stólnum og byrjaði allur að dofna fá verki út í hendurnar. Tryggvi stýrimaður hringdi bara beint í Gæsluna og þar náðu í mig fyrir austan land. Ég fór í sólarhringsrannsókn fyrir sunnan og það fannst ekki neitt. Ég hef aldrei verið betri. Þetta var það eini sem ég átti eftir að fara í þyrluna. Núna er ég búinn að prófa þetta allt.“