„Þetta eru gríðarlega miklar breytingar og kosta mikið fyrir lítinn hafnarsjóð en við erum í sjálfu sér allir af vilja gerðir til þess að hlusta á tillögur,“ segir Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, um tillögur Ísfélagsins að breytingum á höfninni á Þórshöfn.

Björn undirstrikar að málið sé allt á byrjunarreit. Aðeins hafi verið lögð fram gróf tillaga frá Verkfræðistofunni Eflu þar sem breytingunum sé lýst.

„Það liggur fyrir ósk Ísfélagsins um að fá að leggja fram tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir höfnina,“ segir Björn. Þessa tillögu hafi hann lagt fyrir bæði skipulagsnefnd og hafnarnefnd sem sveitarstjórnin hafi falið að vinna málið áfram í samvinnu við Ísfélagið.

Frystigeymsla á fyllingu

„Í stórum dráttum ganga þessar hugmyndir út á það í stórum dráttum að Ísfélagið fer fara fram á stækkun á mjölhúsi og frystigeymslu,“ segir Björn.

Í fyrsta lagi segir Björn um að ræða nýja fyllingu vegna stækkunar á frystigeymslu Ísfélagsins sem eigi hins vegar þegar lóð undir stækkun á mjölgeymslunni. Taka þurfi afstöðu til þess hvernig útbúa eigi hafnarkantinn við fyllinguna; hvort gerð verði trébryggja, settur niður grjótgarður eða stálþil. Þá þurfi að dýpka höfnina, lengja hafnargarðinn um eitt hundrað metra og færa smábátahöfnina utar í höfnina.

„En það er í þessu líka breyting á aðkomu hafnarinnar. Þeir eru að leggja fyrir tvær tillögur með tvenns konar aðkomu að höfninni. Menn leggja náttúrlega áherslu á ásýnd hafnarinnar og ásýnd bæjarins frá höfninni,“ segir Björn.

Ríkið kemur að málinu

Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Langnesbyggðar. Mynd/Aðsend
Björn S. Lárusson, sveitarstjóri Langnesbyggðar. Mynd/Aðsend

Að sögn Björns nema árstekjur hafnarsjóðs um 150 milljónum króna. Það sé hafnarsjóður sem þurfi að greiða landfyllinguna nema það sem fari undir hús Ísfélagsins sem beri þann kostnað.

„Ríkið borgar lengingu hafnargarðsins að stórum hluta. Dýpkunina borgar ríkið að stórum hluta. Breytingin á aðkomunni heyrir undir Vegagerðina en þetta er ekki inni á samgönguáætlun þannig að við þurfum að koma þessu einhvern veginn inn á hana,“ segir Björn.

Sveitarstjórinn segist vissulega eiga von á að auknum umsvifum Ísfélagsins fylgi aukin umsvif fyrir íbúana.

Áhrif af stríðsrekstri

„En kjarni málsins á sér rætur í útflutningi. Þeir vilja stækka frystigeymsluna og auka frystigetuna vegna þess að nú geta menn ekki, út af Úkraínustríðinu og fleiru, einfaldlega skipað út jafnóðum og flutt til Austur-Evrópu. Þannig að þeir þurfa að safna töluverðu fyrir í frystigeymslu,“ segir sveitarstjórinn sem kveður Ísfélagið eiga erfitt með að svara hversu mikið umsvifin aukist. Hann nefnir óvissuna um loðnuvertíðina sem nærtækt dæmi um óvissuþátt.

Björn ítrekar að enn sé löng leið þar til af mögulegri stækkun hafnarinnar geti orðið.

„Það sem þeir eru fyrst og fremst að fara fram á núna er að fá þessa fyllingu. Þeir eru að gera rannsóknir á jarðlögum í höfninni. Það er spurning hvort við gætum notað það efni sem upp kemur við dýpkun við fyllinguna eða hvort við þurfum að sækja það efni lengra að. Þar er mikill munur á kostnaði,“ segir sveitarstjórinn um stöðu málsins.

Opnar á skemmtiferðaskip

Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins, segir málaleitan fyrirtækisins hafa verið vel tekið í Langanesbyggð.

Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins Mynd/Óskar P. Friðriksson
Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins Mynd/Óskar P. Friðriksson

„Við erum að fara að byggja frystigeymslu sem mun auðvitað hafa jákvæð áhrif á umsvifin. Það má búast við að það verði meira flutt út með gámum, beint til kaupenda. Síðan er náttúrlega stefnt á afkastaaukningu í uppsjávarvinnslunni sem mun þýða meiri umsvif,“ segir Stefán sem aðspurður kveðst reikna með að þetta skili sér í auknum umsvifum á Þórshöfn.

„Án þess að það sé mitt að segja til um það þá gæti þetta þýtt líka að það verði pláss eða aðstaða fyrir skemmtiferðaskip til að koma að landi. Þannig að ég held að lenging hafnargarðsins geti nýst fleirum en okkur,“ bendir forstjórinn á. „Þó að við séum auðvitað afar mikilvægt fyrirtæki fyrir þessa byggð þá er náttúrlega fullt af tækifærum þarna.“

Hafnir svari kalli tímans

Stefán segir að almennt gildi um hafnir að þær verði að svara kalli tímans varðandi viðlegukanta, dýpi og alla aðstöðu – hvort sem það sé í Reykjavík eða Þórshöfn.  „Dyrnar að samfélaginu þarna er höfnin þannig að hún þarf að vera í takt við tímann.“

Að sögn Stefáns gera áætlanir Ísfélagsins ráð fyrir því að frystigeymslan verði tilbúin vorið 2025. Til þess að svo geti orðið þurfi að minnsta kosti að vera búið að fylla upp í ákveðið svæði. „En lenging á viðlegukantinum þarf ekki að vera búin fyrir þann tíma,“ tekur hann  fram.

Sem fyrr segir er Ísfélagið stórt í sniðum í atvinnulífinu á Þórshöfn. „Utan vertíða eru þetta um sextíu manns svo fjölgar á vertíðum. Það segir sig því sjálft að í þorpi þar sem búa fjögur hundruð manns að þá er sextíu manna vinnustaður eitthvað sem telur,“ segir Stefán en tekur fram að fleiri búi í Langanesbyggð í heild heldur en á Þórshöfn einni.

Samkvæmt nýjustu tölum eru það 580 manns.

Starfsfólki fækkar með framþróun

„Það er erfitt að segja um það en það er fullt af tækifærum á þessu horni landsins sem eru vannýtt og munu þýða fleiri störf en ég er ekkert endilega að sjá að það verði hjá okkur,“ segir Stefán spurður hvort stöðugildum muni fjölga hjá Ísfélaginu á Þórshöfn við þessar framkvæmdir.

„Við erum náttúrlega bundnir af kvótum sem hafa mestu áhrifin og framþróunin í sjávarútvegi er yfirleitt þannig að það fækkar fólki. Við sjáum ekki miklar breytingar hjá okkur en það er mikil hagræðing í að hafa vöruna hjá sér,“ segir forstjóri Ísfélagsins sem í öðrum fréttum kveður það helst að beðið sé tíðinda af loðnunni. „Maður reynir bara að vera bjartsýnn.“