Undanfarið hefur verið unnið að tillögum um skipulag strandsvæða á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkar tillögur eru mótaðar og því má segja að verið sé að í brjóta blað í hundrað ára skipulagssögu landsins.
Á undanförnum árum hefur verið hreyfing í þá átt víða um heim að innleiða formlega skipulagsgerð á hafsvæðum, t.a.m. setti Evrópusambandið fyrstu strandsvæðisskipulags reglugerðina árið 2014. Það sem hefur ýtt á þessa þróun er í senn krafa um sjálfbæra nýtingu, aukin sókn ólíkrar nýtingar út á hafflötinn og viðleitni til að ýta undir vöxt bláa hagkerfisins. Skipulag fjarða og flóa samþættir þannig nýtingu hafsins, allt frá fiskveiðum og fiskeldis til blárrar líftækni, orkumála á hafi úti og náttúruvernd.
Í landsskipulagsstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2016 var settur fram fyrsti vísir að skipulagsstefnu um hafsvæðin við Ísland. Árið 2018 voru síðan sett lög um skipulag haf- og strandsvæða. Á grundvelli þeirra skal vinna strandsvæðisskipulag fyrir afmörkuð svæði á fjörðum og flóum. Með strandsvæðisskipulagi verður til stjórntæki, sambærilegt og þekkt er við skipulag byggðar og landnýtingar uppi á landi.
Vaxandi sókn í nýtingu þessara svæða hefur leitt til samkeppni um staði og mögulegra árekstra vegna nýtingar. Því hefur það verið talið mikilvægt að fyrir liggi heildstæð greining og yfirsýn svo haga megi nýtingu með sjálfbærum hætti og í sem mestri sátt.
Frumkvæði Vestfirðinga
Hrafnkell Á. Proppé, sviðsstóri stefnumótunar og miðlunar hjá Skipulagsstofnun, segir að frumkvæði að vinnu við strandsvæðaskipulagið hafi komið frá Vestfirðingum.
„Vestfirðingar kölluðu eftir að unnið yrði strandsvæðaskipulag. Eftir að vinnsla við kalkþörunga hófst á Vestfjörðum var gerð nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð 2013. Þær áherslur rötuðu í landsskipulagsstefnu sem samþykkt var á Alþingi 2015. Þá var komin skriður á fiskeldisáform á Vestfjörðum og Austfjörðum og því lá beinast við byrja skipulagningu strandsvæða þar,“ segir Hrafnkell.
Hann segir að við mótun skipulagstillagnanna hafi verið stuðst við yfirgripsmikil gögn um náttúrfar, vistkerfi, veiðar, siglingar og önnur þau afnot sem nú eru stunduð í fjörðum og flóum á þessum svæðum.
„Á báðum svæðum er öflugur sjávarútvegur sem sækir í gjöful fiskimið strandsvæðanna og vaxandi sjókvíaeldi. Á Austfjörðum og Vestfjörðum eru einnig óbyggðasvæði með fjölbreytta náttúru sem hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustu og vaxandi siglingar skemmtiferðaskipa. Eftir sem áður hefur hvort svæði sín sérkenni og sérstöku úrlausnarefni sem taka þarf tillit til. Á Vestfjörðum fer eins og áður sagði fram mikil efnistaka kalkþörungasets en á Austfjörðum eru viðkomustaðirnir í neti evrópskra siglingaleiða og kröfur um öruggar siglingar því ríkari en gengur og gerist,“ segir Hrafnkell.
Fimm skipulagsreitir
Hrafnkell segir jafnframt að í þeim tillögum sem nú eru í kynningu hafi verið mótuð stefna um nýtingu og vernd hvors strandsvæðis. Skipulagssvæðunum sé skipt í skipulagsreiti eftir fimm mismunandi nýtingarflokkum; umhverfi og náttúru, siglingum, lögnum og vegum, staðbundinni nýtingu og almennri nýtingu. Um skipulagsreitina gilda skipulagsákvæði sem leyfisskyld starfsemi þarf að taka tillit til.
Kynningarfundir í júní
Á vefsíðunni hafskipulag.is er hægt að nálgast uppdrátt, vefsjá og umhverfismat tillögu svæðisráðs að strandsvæðisskipulagi Austfjarða og Vestfjarða.
Einnig eru þar upplýsingar um kynningarfundi sem haldnir verða í júní á Vestfjörðum og Austfjörðum.