„Það er frekar rólegt. Við erum að reyna að blanda þetta með ýsu núna,“ sagði Benedikt Páll Jónsson, skipstjóri á línuveiðiskipinu Páli Jónssyni GK, þegar rætt var við hann um miðjan dag á mánudag. Þá var skipið á veiðum úti af Reykjanesi.

„Við erum hér á Stressinu úti af Sandgerði,“ sagði Benedikt. Verið væri að leggja fimmtu og síðustu lögnina í túrnum.

„Það hefur verið svo góð veiði í þorski í haust og við höfum verið að reyna að halda okkur meira að ýsu, að blanda þetta aðeins meira,“ sagði Benedikt. Fengist hefðu á bilinu 260 til 280 kör í túrnum. „Það er svo sem alveg ásættanlegt. En maður vill svo sem alltaf fá meira, það er ekki það.“

Venjulega eru sex lagnir í túr að sögn Benedikts. „En það eru náttúrlega búnir að vera smá skrítnir tímar í Grindavík með allar þessar hamfarir og við fórum ekki út fyrr en degi seinna í þennan túr.“

Synirnir búa í Grindavík

Benedikt sagði aðspurður að ekki væru margir Grindvíkingar í áhöfn Páls Jónssonar. Þrír af 26 manna hópi væru búsettir í Grindavík.

„Ég sjálfur er fluttur til Hafnarfjarðar. Ég bjó í átján ár í Grindavík en ég seldi húsið mitt í janúar á þessu ári,“ sagði Benedikt.

Tveir synir Benedikts búa í Grindavík. „Þeir búa hjá okkur núna í Hafnarfirði. Þeir vita ekki hvað tekur við og hvort og þá hvar þeir fá íbúð,“ sagði hann.

Kannski sendir norður eða austur

Að öllu jöfnu þegar Páll Jónsson GK er á þessum slóðum á veiðum er landað í Grindavík.

„Þannig að þetta eru skrítnir tímar og maður veit náttúrlega ekkert hvað verður. Manni er mest hugsað til alls þessa fólks sem er bara svo að segja heimilislaust. Þetta er bara ómögulegt og gríðarlega erfitt ástand. Maður þekkir mikið af fólki í Grindavík og finnur mikið til með Grindvíkingum,“ sagði skipstjórinn.

Landað verður úr Páli Jónssyni í Hafnarfirði sem verður þá heimahöfn skipsins  um stundarsakir að minnsta kosti.

„En þetta er svo fljótt að breytast allt. Síldarvinnslan á náttúrlega þetta fyrirtæki og kannski vilja þeir fá okkur eitthvert allt annað; austur eða norður í land. Það er dálítið að snúast í hausnum á manni og maganum að maður veit ekki alveg hvað verður,“ sagði Benedikt.

Útgerðin leysir flókna stöðu

Fiskurinn, sem landað er í Hafnarfirði, fer að einhverju leyti norður á Dalvík til vinnslu, væntanlega hjá Samherja að sögn Benedikts.

„Síðan er stór hluti af þessu fluttur út óunninn í gámum. Menn eru að reyna að bjarga sér og það er meira en að segja það,“ sagði Benedikt. Útgerðarfyrirtækið, Vísir, sé með fjögur stór og öflug skip. Þegar vinnslan kippist undan þeim sé flókið að finna aflanum farveg.

„Maður tekur hattinn ofan fyrir þeim að þeir skyldu ekki þurfa að stoppa skipin neitt. Þeir eru mjög lausnamiðaðir og úrræðagóðir að hafa haldið þessu öllu rúllandi. Það er alveg magnað en Vísismenn eru gríðarlega öflugir. Þeir eru náttúrlega með dyggan stuðning Síldarvinnslunnar sem sjálfsagt hefur mikið bakland líka,“ sagði skipstjórinn á Páli Jónssyni GK.