Undirbúningur er hafinn að öðrum áfanga í útboði á fjárfestingakvóta fyrir rússnesk sjávarútvegsfyrirtæki en skipasmíðastöðvar þar í landi hafa varað við því að þær séu nú þegar á fullum afköstum.

Fjárfestingakvótar voru fyrst innleiddir í Rússlandi árið 2017. Tilgangurinn var sá að örva rússneskan skipasmíðaiðnað og hvetja til uppbyggingar nútíma fiskvinnslu í landinu.

Verkefnið felur í sér að 20% af öllum útgefnum fiskveiðiheimildum í landinu er haldið eftir og síðan veitt til útgerðarog fiskvinnslufyrirtækja sem verða fyrir valinu. Kvótinn er veittur til 10-15 ára í senn ráðist þau í smíði nýrra skipa í Rússlandi eða endurnýjun á fiskvinnslufyrirtækjum í landinu.

Fjórtán af 105 skipum afhent

Rússneskar skipasmíðastöðvar standa hins vegar frammi fyrir þeim veruleika að mæta gríðarlegri eftirspurnaraukningu og tímasetningar nýsmíðaverkefna hafa sett fjárfestingaáætlunina úr skorðum. Í febrúar á þessu ári höfðu aðeins fjórtán af þeim 64 fiskiskipum og 41 krabbabát sem höfðu verið pöntuð, verið afhent.

Sérfræðingar í skipasmíðaiðnaði í Rússlandi segja annan áfanga fjárfestingaáætlunarinnar því ekki raunhæfan. Skipasmíðaiðnaðurinn þar í landi glímir við afkastaskort en einnig mikinn skort á íhlutum eins og vélum og skrúfum og öðrum búnaði. Til þess að teljast rússnesk skip þurfi að stórauka framleiðslu á búnaði sem þessum innanlands.

Stanislav Aksenov, sem situr í stjórn rússneska útgerðarfyrirtækisins Russian Fishing Company, segir að stór hluti þess búnaðar sem þarf til að endurnýja rússneska fiskiskipaflotann sé ekki framleiddur í Rússlandi og það taki langan tíma að byggja upp framleiðslu af því tagi.