Faxaflóahafnir, Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn ásamt Special Tours standa nú sem endranær að hinu árlega samstarfsverkefni Sjóferð um sundin.
Verkefnið felur í sér að grunnskólabörn sveitarfélaga Faxaflóahafna er boðið í siglingu og fræðslu um lífríki hafsins á Faxaflóa undir leiðsögn starfsmanna Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.
„Við hjá Faxaflóahöfnum erum ákaflega stolt af að vera aðalkostunaraðili þessa glæsilega samstarfsverkefnis, þar sem komandi kynslóðum við Faxaflóa gefst tækifæri að fræðast um hafið sem umlykur okkur, færir okkur sjávarfang og ekki síður tengir okkur við umheiminn,“ segir Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, í tilkynningu á vef fyrirtækisins.
Tugir þúsunda barna farið í siglingu
Samstarfsverkefnið er hluti af náttúrufræðikennslu 6. bekkjar grunnskólabarna í Reykjavík, Akranesi, Hvalfjarðarsveit og Borgarbyggð. Tugþúsundir barna eru sögð hafa tekið þátt í „Sjóferð um sundin“ síðan 1996.
„Í þá hartnær þrjá áratugi sem verkefnið hefur staðið yfir hafa þúsundir barna fengið að fræðast um lífríki við Faxaflóa og hafnarstarfsemi Faxaflóahafna,“ segir í tilkynningunni.
Faxaflói mikilvæg tenging við samfélagið og framtíðina

Ferðaþjónustufyrirtækið Special Tours hefur verið samstarfsaðili Faxaflóahafna og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins alveg frá fyrstu siglingu.
„Við hjá Special Tours erum stolt af því að hafa tekið þátt í þessu verkefni allt frá upphafi. Fyrstu fræðsluferðirnar með grunnskólabörnum urðu í raun grunnurinn að stofnun Sérferða, í dag Special Tours. Það er okkur hjartans mál að börn fái að upplifa og fræðast um hafið á lifandi hátt - enda er Faxaflói ekki bara hluti af náttúruumhverfi okkar, heldur líka mikilvæg tenging við samfélagið og framtíðina,“ er haft eftir Ástu Maríu Marinósdóttur, framkvæmdastjóra Special Tours.