Þess var minnst á Bryggjunni í Sagnheimum Vestmannaeyjum 16. desember sl. að 100 ár voru frá hörmulegu sjóslysi norðan við Eiðið þennan dag árið 1924. Helgi Bernódusson, fyrrverandi skrifstofusjtóri Alþingis, fór yfir sögu slyssins og þær heimildir sem hann notaði í mjög ítarlegri grein um slysið í jólablaði Fylkis.

„Eitt af hræðilegustu sjóslysum í Vestmannaeyjum varð við norðanvert Eiðið 16. desember 1924, í svartasta skammdegi, fyrir réttum 100 árum. Þá fórust átta menn við landsteinana, fyrir augum þeirra sem voru í fjörunni og áhafna þriggja skipa sem lágu í vari úti fyrir og eins vélbáts frá Eyjum… Ekki var báturinn stór, fjórróinn bátur, fjórir menn undir árum og einn við stýrið. „Lýsingum á slysinu ber saman um að rétt í því bili sem báturinn komst á flot, „í ýtingu“, og mennirnir tveir búnir að vega sig inn í hann reis há alda fyrir framan bátinn og lyfti honum svo að hann tók sjó að aftan en síðan reið ólagið yfir þannig að bátinn fyllti og honum hvolfdi; „bátinn fyllti um leið og þeir ýttu [út]“ … segir Finnur í Uppsölum, „alveg við lenginguna og þó hafði ekki verið neitt sérlega vont þar,“ segir í grein Helga en þetta gerist um 100 til 200 m frá landi.

Nánar er fjallað um erindi Helga Bernódussonar og minningarathöfnina í Sagnheimum á www.eyjar.net.