Sjóprófanir fóru fram í síðustu viku á Sigurbjörgu ÁR, nýju togskipi Ísfélagsins, sem smíðað er í Celiktrans skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Ráðgert er að sigling heim til Íslands verði eftir 3-4 vikur.
Sigurbjörg ÁR er 48 metra langur togari og 14 metra breiður. Skipið verður með fjórum togvindum og með möguleika á þriggja trolla veiðum. Aðalvélin er 1.795 kW. Það var Nautic sem hannaði skipið. Hrafnkell Tulinius, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að sjóprófanir hafi gengið eins og í sögu og athugasemdalaust. Kaupendur hafi lýst mikilli ánægju.
Sama skrokklag er á skipinu og HB Granda skipunum sem Nautic hannaði upp úr 2015 með svokölluðu Enduro Bow stefni sem og Björg EA og Björgólfur EA, skip Samherja. Sigurbjörg er þó styttri en breiðari en Akurey og Viðey. Gert er ráð fyrir að ganghraðinn verði nálægt 14 mílur á um 80% vélarálagi. Allur vinnslubúnaðurinn var framleiddur af Klaka ehf. í Kópavogi sem smíðaði einnig sjálfvirkt lestarkerfi með fjórum lyftum. Kælibúnaðurinn kemur frá Kælismiðjunni Frost á Akureyri og vindubúnaður frá Ibersisa. Afhending skipsins var áætluð í desember á síðasta ári en þau áform riðluðust. Nú er stefnt að afhendingu í júlímánuði. Heimahöfn Sigurbjargar ÁR verður Þorlákshöfn.