Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru langflest í þeirri stöðu að standast allar þær kröfur sem bankar gera almennt um útlán. Þau eru eftirsóttir viðskiptavinir, ekki bara meðal íslenskra banka heldur einnig erlendra banka, að því er fram kom í máli Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, á Sjávarútvegsráðstefnunni fyrir skemmstu. Þar gerði hún samanburð á sjávarútvegsfyrirtækjum í dag og fyrir daga kvótakerfisins
„Hefðu þau staðist lágmarks skilyrði nútímans? Stutta svarið er nei, ekki eitt einasta. Sjávarútvegur fyrir daga kvótakerfisins myndi ekki teljast lánshæfur í dag. Fyrir rúmlega 40 árum gekk þjónusta bankakerfisins ekki hvað síst út á afurðalán og ýmiss konar reddingar til þess að félögin gætu borgað laun á réttum tíma,“ sagði Lilja Björk.
Forsenda fyrir nauðsynlegri hagræðingu
„Þegar allt stefndi í óefni tóku við ríkisábyrgðir og jafnvel gengisfellingar. Þegar flett er í gömlum dagblöðum er ótrúlegt að sjá þær hugmyndir sem voru uppi um hvers kyns millifærslur til þess að styðja við atvinnugrein sem hefur sýnt það og sannað að getur staðið á eigin fótum og er nú fyrirmynd fyrir sjávarútveg annarra ríkja. Staða útgerðarinnar hefur gerbreyst og fiskveiðistjórnunarkerfið leikur þar stórt hlutverk. Hvað sem mönnum þykir um kvótakerfið er ljóst að fiskveiðistjórnunarkerfið hefur verið forsenda fyrir nauðsynlegri hagræðingu í greininni, tryggt ákveðinn fyrirsjáanleika í rekstri sem hefur gert fyrirtækjunum kleift að fjárfesta, byggja upp til framtíðar og fá lán hjá bönkunum fyrir þessari uppbyggingu. Það hafa orðið miklar breytingar í sjávarútvegi. Á meðan aðrar greinar hafa vaxið sem hlutfall landsframleiðslu hefur sjávarútvegurinn haldið sínu. Til hafa orðið feikilega öflug útgerðarfélög sem hafa slagkraft til fjárfestinga og nýsköpunar. Þótt heildarafli hafi dregist saman hefur aflaverðmæti aukist. Fyrirtæki í nýsköpun sem tengd eru sjávarútvegi hafa mörg hver náð frábærum árangri eins og allir þekkja. Fyrirtækin hafa haft bolmagn til þess að fjárfesta í nýrri tækni, nýjum aðferðum, nýsköpun og nýjum fiskiskipum. Undanfarin tíu ár hefur orðið mikil endurnýjun í fiskiskipaflotanum og mörg ný og sparneytnari skip bæst í flotann.“
30 ný skip frá 2016
Sjávarútvegssvið Landsbankans gerði lauslega talningu á nýjum skipum sem hafa bæst í flotann en bankinn hefur komið að fjármögnun margra þeirra. Samkvæmt þessu hafa 30 ný skip, þar af 22 togarar, fjögur uppsjávarskip og fjórir stærri bátar, bæst í flotann frá árinu 2016. Í þessari upptalningu eru ekki minni bátar sem smíðaðir eru innanlands.
„Til viðbótar við verulega jákvæð umhverfisáhrif og olíusparnað með nýrri og betri tækni og betri nýtingu orku, bætist við mun betri aðbúnaður fyrir sjómenn og öruggari skip. Þetta hefði ekki gerst nema vegna þess að rekstur þessara félaga hefur gengið vel. Þau hafa verið fjárhagslega í stakk búin að ráðast í þessar fjárfestingar,“ sagði Lilja Björk.