Matvælaráðuneytið hefur auglýst opið fyrir umsóknir í verkefninu „Sjálfbær fiskveiði í heilbrigðu hafi" sem er samstarfsverkefni Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Færeyja, Íslands, Litháen og Noregs.
Norræna rannsóknaráðið (NordForsk), sem er rekið á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, leggur fram fjármagn til verkefnisins. Heildarráðstöfunarfé nemur 40 milljónum norskra króna eða um 518 milljónum íslenskra króna. Hámarksfjárhæð sem umsækjendur geta sótt um er 8 milljónir norskra króna, 104 milljónir íslenskra króna.
Tilgangur verkefnisins er að stuðla að sjálfbærum fiskveiðum með hliðsjón af loftslagsbreytingum og grænum áherslum. Áhersla er lögð á rannsóknir á áhrifum fiskveiða á umhverfi sjávar og möguleikum til draga úr áhrifum veiðanna.
Í frétt frá ráðuneytinu segir að verkefnið samræmist í senn sameiginlegri yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlanda frá 2022 um málefni hafsins og græn orkuskipti og framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar til 2030.
Í nánari lýsingu á verkefninu segir m.a.: Að draga úr neikvæðum áhrifum fiskveiða á botnlæg vistkerfi er alþjóðlegt forgangsverkefni, sérstaklega til að vernda viðkvæm sjávarvistkerfi. Veiðiaðferðir þar sem notuð eru tiltekin hreyfanleg veiðarfæri fyrir botnsnertingu eru sérstakt áhyggjuefni vegna þess að efnisleg röskun á snertingu veiðarfæra spillir botnbúsvæðum og sjávarvistkerfum. Fiskveiðar geta einnig haft ýmis önnur neikvæð áhrif á vistkerfi, svo sem að draga úr fjölda rándýra og tegunda í útrýmingarhættu og breyta fæðukeðjum. Þá geta þaulveiðar leitt til hnignunar fiskistofna og hindrað getu þeirra til að ná sér á strik og haft mikil áhrif á fólk sem reiðir sig á þessar auðlindir.
Umsóknarfrestur er til 28. maí næstkomandi.