Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK 10 segir lítið hafa verið að sjá af loðnu á miðunum.

„Það er einhver loðna á ferðinni en við höfum nú ekki séð nein stór merki um einhverjar loðnutorfur,“ svarar Eiríkur sem var á þorskveiðum austan við Djúpálinn er rætt var við hann.

„Ég held bara að það sé ekkert mikið af loðnu. Við höfum ekki séð loðnu hérna á Vestfjarðamiðum í mjög langan tíma,“ bætir Eiríkur við. Menn geri sér stundum of miklar vonir með loðnuna.

Stappað af hval

„En menn verða líka að skilja að það verður að skilja eftir ein hverja loðnu til þess að fiskurinn hafi eitthvað að éta. Ég tala nú ekki um að það þarf að passa upp á að hvalurinn nái í sitt því það eru svoleiðis hjarðirnar af hval hérna á haustin og sumrin að það er engu lagi líkt, það er allt stappað,“ segir Eiríkur.

Að sögn Eiríks stækka hvalastofnar stjórnlaust. „Hnúfubakurinn hefur tí- eða tuttugufaldast á síðustu 20-30 árum. Það er svakalegt sem hann er búinn að stökkbreytast í vexti í öllum heimshöfum,“ segir Eiríkur.

Risamöskvar vegna karfans

Túrinn ætlaði Eiríkur að enda með því að ná í karfa sem hann kveður auðgert.

„Það er búið að skera karfakvótann þvílíkt niður við trog en við komumst hvorki lönd né strönd fyrir karfa. Nú er aðalmálið hjá togurunum sem eru að leita að þorski eða öðrum tegundum að vera bara með nógu andskoti stóran riðil svo karfinn sleppi út og menn losni við hann,“ segir Eiríkur. Í þessu skyni sé notast við 200 millimetra riðil í pokanum í staðinn fyrir 135 millimetra.

„Þetta eru risamöskvar. Þá heldur maður inni góðum fiski en tapar þó náttúrlega helling líka,“ segir Eiríkur sem kveður menn hafa gagnrýnt þá stefnu hjá matvælaráðuneytinu að setja núllkvóta á djúpkarfa.

Mikið af djúpkarfa

„Það er búið að eyðileggja rekstrargrundvöll fyrir því að menn geti verið í skerjadýpi af því að það er enginn kvóti gefinn út á eina tegund. Karfinn er í sjónum og þú sleppur ekki við að fá hann,“ segir Eiríkur sem kveðst vera búinn að vera á sjó í 52 ár og þar af verið skipstjórnarmaður síðan 1982.

„Ég er búinn að stunda suðvesturmið lungann úr þeim tíma svo maður hefur einhvern snefil af því að vita hvað hefur verið í gangi þar. Það hefur sjaldan verið eins mikið af djúpkarfa á ferðinni eins og undanfarin tvö ár. Og þá er settur núllkvóti á hann. Það er ekki hemja hvernig þetta lið hagar sér. Það hefur ekki hundsvit á því sem er að gerast út á sjó,“ segir Eiríkur Jónsson á Akurey.

Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK 10 segir lítið hafa verið að sjá af loðnu á miðunum.

„Það er einhver loðna á ferðinni en við höfum nú ekki séð nein stór merki um einhverjar loðnutorfur,“ svarar Eiríkur sem var á þorskveiðum austan við Djúpálinn er rætt var við hann.

„Ég held bara að það sé ekkert mikið af loðnu. Við höfum ekki séð loðnu hérna á Vestfjarðamiðum í mjög langan tíma,“ bætir Eiríkur við. Menn geri sér stundum of miklar vonir með loðnuna.

Stappað af hval

„En menn verða líka að skilja að það verður að skilja eftir ein hverja loðnu til þess að fiskurinn hafi eitthvað að éta. Ég tala nú ekki um að það þarf að passa upp á að hvalurinn nái í sitt því það eru svoleiðis hjarðirnar af hval hérna á haustin og sumrin að það er engu lagi líkt, það er allt stappað,“ segir Eiríkur.

Að sögn Eiríks stækka hvalastofnar stjórnlaust. „Hnúfubakurinn hefur tí- eða tuttugufaldast á síðustu 20-30 árum. Það er svakalegt sem hann er búinn að stökkbreytast í vexti í öllum heimshöfum,“ segir Eiríkur.

Risamöskvar vegna karfans

Túrinn ætlaði Eiríkur að enda með því að ná í karfa sem hann kveður auðgert.

„Það er búið að skera karfakvótann þvílíkt niður við trog en við komumst hvorki lönd né strönd fyrir karfa. Nú er aðalmálið hjá togurunum sem eru að leita að þorski eða öðrum tegundum að vera bara með nógu andskoti stóran riðil svo karfinn sleppi út og menn losni við hann,“ segir Eiríkur. Í þessu skyni sé notast við 200 millimetra riðil í pokanum í staðinn fyrir 135 millimetra.

„Þetta eru risamöskvar. Þá heldur maður inni góðum fiski en tapar þó náttúrlega helling líka,“ segir Eiríkur sem kveður menn hafa gagnrýnt þá stefnu hjá matvælaráðuneytinu að setja núllkvóta á djúpkarfa.

Mikið af djúpkarfa

„Það er búið að eyðileggja rekstrargrundvöll fyrir því að menn geti verið í skerjadýpi af því að það er enginn kvóti gefinn út á eina tegund. Karfinn er í sjónum og þú sleppur ekki við að fá hann,“ segir Eiríkur sem kveðst vera búinn að vera á sjó í 52 ár og þar af verið skipstjórnarmaður síðan 1982.

„Ég er búinn að stunda suðvesturmið lungann úr þeim tíma svo maður hefur einhvern snefil af því að vita hvað hefur verið í gangi þar. Það hefur sjaldan verið eins mikið af djúpkarfa á ferðinni eins og undanfarin tvö ár. Og þá er settur núllkvóti á hann. Það er ekki hemja hvernig þetta lið hagar sér. Það hefur ekki hundsvit á því sem er að gerast út á sjó,“ segir Eiríkur Jónsson á Akurey.