Landað er úr frystitogaranum Blængi NK í Hafnarfirði í dag að lokinni síðustu veiðiferð skipsins á kvótaárinu. Veiðiferðin var stutt og var einungis verið 19 daga að veiðum. Aflinn er um 650 tonn upp úr sjó og verðmæti hans er 328 milljónir króna.
„Við vorum mest á Halanum í túrnum og veðrið var frábært nánast allan túrinn. Það var blíða og fullkomlega sléttur sjór lengst af. Í þessum túr var góð ufsaveiði og það er mest af ufsa í aflanum, síðan er karfi og þorskur með. Vinnslan um borð var samfelld allan túrinn og var mjög góður gangur í henni. Við vorum með rúmlega 20 tonn af frosnum afurðum á dag. Það var eiginlega synd að fara úr svona góðri ufsaveiði en nú er slippur næst á dagskrá hjá okkur. Að lokinni löndun verða veiðarfæri tekin í land og slippurinn undirbúinn. Skipið fer í slipp í Reykjavík og þar verður sinnt hefðbundnu viðhaldi. Það verður málað, vélin tekin upp og svo framvegis. Gert er ráð fyrir að slippurinn taki um mánaðartíma,” sagði Sigurður Hörður Kristjánsson skipstjóri í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.