Síldarvinnslan hefur lokið síldveiðitímabilinu. Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins.

„Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 1.570 tonn af íslenskri sumargotssíld og er þetta síðasti síldarfarmurinn sem Síldarvinnsluskip mun færa að landi á þessari vertíð. Vinnsla á síldinni hófst strax í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar og er hún ýmist heilfryst eða flökuð,“ segir á svn.is.

„Við vorum að veiðum í Kolluálnum. Þetta byrjaði rólega en undir lokin var hörkuveiði og mikið að sjá. Aflinn fékkst í fimm holum. Þetta er sama fallega síldin og hefur fengist alla vertíðina,“ er haft eftir Hjörvari Hjálmarssyni, skipstjóra á Berki, sem segir að veiðiferðin hafi gengið vel.

„Þetta er um 300 gramma síld og hún lítur vel út. Þessi síld er líka afar spræk og oft mikil ferð á henni. Og hún virðist vera algjörlega laus við sýkinguna sem hefur herjað á stofninn síðustu ár. Þetta er síðasti túr vertíðarinnar, allir kvótar eru búnir. Vertíðin hefur verið góð í alla staði og þá skiptir veðrið auðvitað miklu máli. Menn hafa verið alveg lausir við suðvestanáttir sem eru hundleiðinlegar á veiðisvæðinu þarna fyrir vestan,“ er áfram haft eftir Hjörvari.

Skipt yfir í kolmunna

Nú verður að sögn Hjörvars skipt um veiðarfæri og kolmunnatroll tekið um borð. Líklega verði farið á kolmunna í byrjun nýs árs.

„Hugsanlega verður haldið til loðnuleitar í desember og síðan verður auðvitað leitað að loðnu eftir áramót. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því en við erum bjartsýnir. Það hlýtur að verða loðnuvertíð,“ segir Hjörvar skipstjóri á svn.is