Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gera athugasemdir við það sem þau kalla rangfærslur Landssamband smábátaeigenda um afla og nýtingu heimilda á undanförnum fjórum fiskveiðiárum og birtust í grein á heimasíðu LS og sagt var frá í frétt á www.fiskifrettir.is. SFS segir framsetningu LS ámælisverða og til þess fallna að villa um fyrir fólki. Um augljósa tilraun sé að ræða til þess að hafa áhrif á stjórnvöld við úthlutun heimilda til strandveiða.

Hér á eftir fer grein SFS sem birtist á heimasíðu samtakanna fyrr í dag:

Þann 12. apríl síðastliðinn birtist grein á heimasíðu Landssambands smábátaeiganda (LS) þar sem fjallað var um afla og nýtingu heimilda á undanförnum fjórum fiskveiðiárum. Framsetning greinarinnar gefur til kynna að handhafar aflaheimilda séu ekki að nýta þær heimildir sem eru í boði. Þannig er staðhæft að á fiskveiðiárunum frá 2019/2020 til 2022/2023 hafi verið ónýtt aflamark fyrir 19 þúsund tonn af þorski, 145 þúsund tonn af ufsa og 13 þúsund tonn af ýsu í umframafla.

Þetta er ekki rétt og raunar nokkuð fjarri lagi. Á nefndu tímabili voru eingöngu ónýtt 114 tonn af þorski, 78 tonn af ýsu og 23.320 tonn af ufsa (slægt). Magn þetta er óverulegt.

Í aflamarkskerfi felst að heildaraflamarki hvers fiskveiðiárs er skipt á milli þeirra sem hafa yfir aflahlutdeild að ráða. Þetta þekkir LS. Útgerðir geta síðan lögum samkvæmt flutt hluta úthlutaðs aflamarks á milli fiskveiðiára eftir ákveðnum reglum. Slíkar flutningsheimildir hafa verið í lögum í áratugi. Þessi möguleiki til flutnings milli fiskveiðiára gerir útgerðum meðal annars kleift að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum og sveiflum í úthlutuðu aflamarki. Þannig eru óveiddar heimildir fyrra árs veiddar á því næsta. Þessi sveigjanleiki er nauðsynlegur.

Þá er ágætt að rifja það upp fyrir LS að talsverður samdráttur hefur verið í ráðlögðum þorskafla síðastliðin ár. Útgerðir aflamarksskipa hafa mætt þessum niðurskurði t.d. með því að nýta þann sveigjanleika sem er innbyggður í kerfið og þá meðal annars í heimildum til flutnings milli fiskveiðiára. Það kemur kannski ekki á óvart að LS hlaupi hér á sig, enda hafa strandveiðar ekki þurft að glíma við sársaukafullan niðurskurð í heimildum. Á sama tíma og skip innan aflamarkskerfisins hafa tekið á sig verulegan samdrátt í ráðlögðum afla hafa strandveiðar tekið sífellt stærri sneið af kökunni. Það er umhugsunarefni.

Að framangreindu virtu er framsetning LS ámælisverð og til þess fallin að villa um fyrir fólki. En þessi vegferð er að sjálfsögðu ekki tilviljun. Um er að ræða augljósa tilraun til þess að hafa áhrif á stjórnvöld við úthlutun heimilda til strandveiða og ná þannig enn á ný aukinni hlutdeild frá fólki og fyrirtækjum sem stunda veiðar allt árið um kring. Hið rétta er að heimildir til flutnings aflamarks á milli ára eru grundvallarþáttur í velgengni íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins. Þær tryggja sveigjanleika, þannig að unnt sé að hámarka verðmæti afurða fyrir þjóðarhag.