Vísisskipin hafa landað í heimahöfn að undanförnu. Togarinn Jóhanna Gísladóttir GK landaði 25 tonnum eftir stuttan túr á sunnudaginn. Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri sagði í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar að aflinn hefði verið heldur rýr.

„Við vorum með þessi 25 tonn eftir tvo sólarhringa. Það var farið austur á Síðugrunn að eltast við ýsu en árangurinn var ekki betri en þetta. Við fórum í tvo stutta túra á undan þessum sem gengu miklu betur og fékkst fullfermi í báðum. Í fyrri túrnum var veitt á Látragrunni og í Nætursölunni og var aflinn mest ýsa, þorskur og karfi. Í síðari túrnum fékkst ýsa og karfi á Eldeyjarbanka og á Melsekk. Nú hvíla menn sig dálítið en það verður ekki haldið til veiða á ný fyrr en á annan í páskum,” sagði Einar Ólafur.

Skraptúr

Línuskipið Páll Jónsson GK landaði tæpum 80 tonnum í gærmorgun og var Jónas Ingi Sigurðsson skipstjóri sáttur við túrinn. „Þetta var skraptúr og við lögðum áherslu á að veiða keilu og löngu. Við byrjuðum í Háfadýpiskantinum og síðan var farið á Kötlugrunn. Það er nauðsynlegt að taka svona túra og þetta gekk bara vel. Það verður haldið á ný til veiða strax að löndun lokinni,” sagði Jónas Ingi.

Línuskipið Sighvatur GK kom til löndunar í morgun. Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson skipstjóri sagði að aflabrögðin hefðu mátt vera betri. „Þetta voru fjórar lagnir og aflinn var tæplega 40 tonn. Við vorum á Síðugrunni og í Skaftár- og Skeiðarárdýpi. Aflinn var að mestu ýsa og langa og þetta var ósköp rólegt. Það verður haldið á ný til veiða í kvöld,” sagði Aðalsteinn Rúnar.