Magnús Þór Róbertsson, rekstrarstjóri hjá Brimi á Vopnafirði, segir að þar hafi verið tekið á móti um tíu þúsund tonnum af makríl og að vinnslan hafi gengið vel þrátt fyrir hátt hlutfall af átu.

„Fiskurinn er töluvert stærri samanborið við sama tíma og í fyrra eða um 550 grömm að meðalstærð,“ segir Magnús Þór Róbertsson, rekstrarstjóri hjá Brimi á Vopnafirði, um makrílinn sem vertíðin sem nú stendur yfir er að skila.

Vinnsla hefur gengið vel að því er Magnús segir. Skip Brims vinni saman. „Venus, Víkingur og Svanur hafa verið að veiða saman og það skilar það sér í markvissari vinnslu í landi. Við erum búnir að taka á móti rúmum tíu þúsund tonnum og hefur sá fiskur verið veiddur að mestu leyti á Íslandsmiðum,“ segir hann.

Almenn bjartsýni á framhaldið

Magnús Þór Róbertsson rekstrarstjóri Brim Vopnafirði.
Magnús Þór Róbertsson rekstrarstjóri Brim Vopnafirði.

Þótt vinnslan hafi gengið vel hafa margir farmar verið með hátt átuhlutfall og því nýst illa til vinnslu að sögn Magnúsar.

„Við höfum reynt að flaka þegar átan hefur verið sem mest en annars heilfryst,“ segir Magnús sem kveður makrílinn vera að breytast.

„Nú er fitan í fiskinum að hækka og líklegt að eftirspurn fari vaxandi. Annars hefur gengið vel að selja það sem búið er að framleiða og menn eru almennt bjartsýnir á framhaldið,“ segir rekstrarstjórinn á Vopnafirði.

Þriðjungur kvótans veiddur

Samkvæmt tölum Fiskistofu hafa skip Síldarvinnslunnar og Brims landað mestu af makríl á vertíðinni; Síldarvinnslan 9.372 tonnum og Brim 9.142 tonnum miðað við stöðuna á miðvikudag. Hafði 4.599 tonnum verið landað úr Venusi sem er á toppnum yfir aflahæstu skipin. Sem fyrr segir er Venus í samveiði með systurskipum sínum.

Næst á eftir Síldarvinnslunni og Brimi komu Samherji með 5.893 tonn, Vinnslustöðin með 4.919 tonn, Eskja með 4.490 tonn, Skinney-Þinganes 4.149 tonn, Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði með 1.969 tonn, Gjögur með 1.925 tonn, Ísfélagið með 1.816 tonn, Huginn 1.495 tonn og Guðrún Þorkelsdóttir með 1.471 tonn.

Samtals var makrílveiðin á miðvikudag komin í 46.640 tonn samkvæmt tölum Fiskistofu. Eru þá um eitt hundrað þúsund tonn eftir af ónýttum aflaheimildum. Aflanum hefur verið landað í Vestmannaeyjum, Hornafirði, Fáskrúðsfirði, Neskaupstað og Vopnafirði.