Stjánagengið á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni GK gerði ekki endasleppt í síðasta túr. Allir að undanskildum þremur veiktust af kórónuvírusnum, stóðu vaktina í nánast stöðugum brælum og skiluðu eftir túrinn mestu aflaverðmætum í sögu útgerðar Þorbjarnar hf. í Grindavík.

Lagt var í hann 3. mars og einum mánuði síðar, 3. apríl, lauk törninni, þar af voru 27 dagar við veiðar. En törnin var ekki alveg samkvæmt handritinu því farið var fjórum sinnum í land vegna brælu, tvisvar var millilandað og þremur úr áhöfninni skilað á land meðan þeir náðu sér af kórónuvírusnum sem lék lausum hala um borð. Það tók tíu daga að kveða þann vágest niður og enginn veiktist þó alvarlega. Þegar rætt var við Kristján Ólafsson skipstjóra í byrjun vikunnar var enn þá verið að landa úr skipinu tilbúnum afurðum.

„Meira og minna höfum við verið einum færri í túrnum vegna þessara veikinda. Það hefur verið meira streð á öllum fyrir vikið og það gekk hratt á paratabs birgðirnar og hóstasaftið. En þeir voru glerharðir strákarnir. Þeir sögðu að veiðin væri allt of góð og neituðu að gefast upp.“

16 milljónir á dag

Túrinn hófst úti fyrir Vestfjörðum og þar voru menn að veiðum í tæplega viku í ágætum þorski. Þá var haldið suður í Jökuldýpið þar sem fékkst líka fínn þorskur. Þá kom leiðindabræla sem stóð yfir í nærri heila viku og var þá haldið í land og millilandað. Í seinna hluta túrsins fékkst mikið af þorski og ufsa á Selvogsbankanum. Einnig fékkst slatti af ýsu, djúpkarfa og gullkarfa. Þegar upp var staðið var þetta stærsti túr sem gerður hefur verið á Hrafni Sveinbjarnarsyni og stærsta löndun hjá Þorbirni.

„Þetta voru 860 tonn upp úr sjó og við reiknum þetta á 431 milljón kr. Ég held að það eigi frekar eftir að fara upp en niður þegar uppgjörið verður klárt. Fiskverð hækkar stöðugt,“ segir Kristján. Miðað við 27 daga að veiðum hefur meðal aflaverðmæti á dag verið tæpar 16 milljónir kr. Einn hásetahlutur fyrir túrinn leggur sig á um 4,7 milljónir kr.

Gott að komast í ufsa

Kristján segir að fiskurinn sem fékkst hafi verið stór og fallegur. Uppistaðan var 3ja til 4ra kílógramma fiskur og ufsinn var sex kílóa fiskur og mátti ekki vera mikið stærri fyrir tækin. Það hafi verið gott að komast í ufsa því hann geti oft verið dyntóttur. Ufsinn hafi þó verið að sýna sig dálítið þegar fór að líða dálítið á vertíðina. Fyrst á Selvogsbankanum og núna upp á síðkastið út af Eldeyjarbanka.

„Ufsinn hefur hækkað í verði eins og aðrar afurðir þótt hann verði aldrei eins og þorskur eða ýsa í verðum. Samt er kílóverðið komið vel yfir 450 krónur en þorskurinn er kominn yfir 600 kr. kílóið upp úr sjó. Við erum með ákveðna flokka í afurðarverðum og flakaður er hann kominn upp í 1.500 krónur kílóið.“

Mikil ýsu- og karfagegnd

Kristján segir að það liggi við að vikugömul verð séu orðin úrelt. Fiskverð hækkar stöðugt. Hluti skýringarinnar er mikil eftirspurn og minna framboð inn á evrópska markaði vegna innflutningsbanns á fisk rússneskra skipa. Hann segir að verð á karfa hafi ekki hækkað jafn mikið. Fyrir karfa sem var veiddur fyrir Asíumarkaði síðastliðið haust og vetur fengust um 190 kr. fyrir kílóið. Hann er núna kominn upp í 230-240 kr. Verðhækkunin er því hlutfallslega mun minni en á öðrum afurðum. Mettúrinn gaf af sér rúm 40 tonn af djúpkarfa eftir rúman sólarhring og innan við 100 tonn af gullkarfa. Kristján segir gríðarlega veiði geta verið á gullkarfa sæki menn sérstaklega í hann. Á Melsekknum geti fengist tonn á mínútu þar sem bingurinn er þykkastur. Á Heimsmeistarahryggnum eru líka karfaskaflar. „En Hafró segir að það sé ekki til karfi í sjónum og engin nýliðun. Eins er með ýsuna. Það má segja að það sé ýsubingur alveg frá Reykjanestá alveg austur að Eyjum. Það er hellingur af ýsu úti fyrir Vesturlandi og Norðurlandi líka. En Hafró segir að það ekki nægilega mikil nýliðun. Það er okkar sýn að það sé meira af ýsu á ferðinni í kringum landið en þorski. Vertíðarþorskurinn gengur hingað yfir á hrygningarslóðir frá Grænlandi og gengur svo vestur yfir aftur,“ segir Kristján.