„Ég hef alltaf góða tilfinningu fyrir því,“ segir Geir Zoëga, skipstjóri á Polar Amaroq um útlitið með loðnuna í vetur. Enginn loðnukvóti hefur verið gefinn út þar sem mælingar vísindamanna hafi ekki sýnt nægjanlegt magn af loðnu.
Geir er í ítarlegu viðtali í jólablaði Fiskifrétta og ræðir meðal annars um loðnuna. Hann bendir á að í loðnuleiðangri í haust hafi lítið vantað upp á í mælingunni til að gefinn yrði út kvóti. „Ég hef tekið þátt í tíu-fimmtán loðnuleiðöngrum og ég spái því að það verði kvóti, ég trúi ekki öðru.“
Að mati Geirs er afar mikilvægt að útgerðin, iðnaðurinn og skipin séu með í loðnuleitinni. Að það sé hjálpast að. Verkefnið sé risavaxið.
Öfundar ekki vísindamennina
„Ég öfunda ekkert vísindamennina af þessu verkefni – þótt ég sé ekki alveg sammála þeim í aðferðafræðinni. Það er örugglega gífurlega erfitt að halda utan um þetta og reyna að segja hvað það eru margar loðnur í sjónum,“ segir Geir sem horfir bjartsýnum augum á fyrirhugaðan loðnuleiðangur í janúar sem sé aðalmælingarleiðangurinn.

„Þetta er orðið svo furðulegt með þessa loðnu. Bara á síðustu vertíð komu allt í einu tvö hundruð þúsund tonn í Húnaflóa sem gengu svo vestur fyrir,“ segir Geir.
Loðnan sé ekki alveg útreiknanleg. „Hún kemur alltaf á óvart. Það er engin loðnuvertíð eins. En ég hef trú á loðnunni, ég held að það sé undirmat á henni. Það er að minnsta kosti loðna víða.“
Klórar sér í kollinum yfir hlut Norðmanna
Íslendingar sitja ekki einir að loðnunni. Polar Amaroq siglir undir grænlensku flaggi og Grænlendingar eiga sinn hlut í stofninum.
„Það er mjög góð samvinna hjá vísindamönnunum,“ segir Geir spurður um hvernig samkomulagið varðandi loðnuna sé milli landanna.
„Ég hef setið í loðnunefnd fyrir Grænland og það er mjög góð samvinna á milli landanna, sérstaklega á milli Íslands og Grænlands. Menn vilja ekki ofveiða stofninn og gera þetta eins vel og hægt er. En maður klórar sér oft í kollinum yfir því að Norðmenn séu með allan þennan loðnukvóta en það er nú eitthvað að breytast núna.“
Nánar er rætt við Geir Zoëga um margvísleg mál í nýútkomnu jólablaði Fiskifrétta.